Gylfi Þór Sigurðsson varð í kvöld markahæsti leikmaður í sögu íslenska karlalandsliðsins. Hann skoraði tvennu í 4-0 sigri á Liechtenstein á Laugardalsvelli og er núna búinn að skora 28 mörk fyrir landsliðið.
Gylfi var að snúa til baka eftir tæplega þriggja ára fjarveru með landsliðinu en spilaði samt sem áður frábærlega í kvöld.
Gylfi var að snúa til baka eftir tæplega þriggja ára fjarveru með landsliðinu en spilaði samt sem áður frábærlega í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 4 - 0 Liechtenstein
„Þetta er yndislegt. Ég hef beðið eftir þessu lengi. Ég er mjög stoltur og ánægður að hafa náð þessu í kvöld," sagði Gylfi í samtali við Fótbolta.net eftir leikinn.
„Þetta var ólýsanleg tilfinning. Þetta er eitthvað sem manni dreymdi um þegar maður var lítill. Maður bjóst kannski ekki við því að þetta gæti orðið að veruleika. Að ná metinu af Kolla og Eiði, sem var mín fyrirmynd þegar ég var lítill, gerir þetta enn sérstakara fyrir mig."
„Síðustu ár hefur maður verið með annað augað á þessu meti. Það er yndisleg tilfinning að þetta sé komið í höfn."
Gylfi talaði um það fyrir stuttu að það væri sitt stærsta markmið að ná metinu og núna er það komið. Hann segist vera með fullt af markmiðum í viðbót, eins og til dæmis að komast í form aftur.
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, hafði hugsað sér að taka Gylfa út af í hálfleik þar sem hann er nýbyrjaður að spila aftur. Það kom ekki til greina og Gylfi skoraði sögulega markið snemma í seinni hálfleiknum.
„Ég plataði hann til að leyfa mér að spila áfram í tíu mínútur," sagði Gylfi en allt viðtalið er í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir