Ísland tapaði 2-0 fyrir Úkraínu í lokaleik riðilsins í undankeppni HM. Ísland endar í þriðja sæti í riðlinum og er því ljóst að liðið leikur ekki á HM á næsta ári.
Lestu um leikinn: Úkraína 2 - 0 Ísland
Elías Rafn Ólafsson - 7
Ekki hægt að setja neitt út á Elías í mörkunum tveimur sem Úkraína skoraði. Var öruggur í flestöllum sínum aðgerðum og átti góðar vörslur.
Guðlaugur Victor Pálsson - 6
Traustur og öruggur í bakverðinum. Gríðarlega nálægt því að koma Íslandi yfir og var óheppinn að fá boltann í sig í seinna marki Úkraínu.
Sverrir Ingi Ingason - 7
Góður og öruggur í sínum aðgerðum varnarlega, lítið við Sverri að sakast.
Hörður Björgvin Magnússon - 6
Það var ekki að sjá að Hörður væri að koma aftur inn í liðið eftir langa fjarveru, stóð sig vel í dag.
Mikael Egill Ellertsson - 4
Átti virkilega erfitt uppdráttar í kvöld. Virkaði hálf vanstilltur og komst aldrei í takt við leikinn. Mikael átti stóra sök í fyrra marki Úkraínu, allt of langt frá manninum sínum.
Ísak Bergmann Jóhannesson - 7
Var virkilega flottur á miðsvæðinu og mikilvægur póstur í uppspili Íslands.
Hákon Arnar Haraldsson - 6
Fyrirliðinn stóð vaktina á miðjunni ágætlega.
Jón Dagur Þorsteinsson - 5
Sinnti varnarvinnunni vel en var takmarkaður sóknarlega, líkt og allt íslenska liðið.
Albert Guðmundsson - 5
Var of gjarn á að tapa boltanum á hættulegum svæðum og skapaði lítið í þokkabót. Frammistaða Alberts klár vonbrigði.
Brynjólfur Willumsson - 6
Kom óvænt inn í liðið en bauð upp á lítið. Komst lítið í boltann en sinnti varnarvinnunni vel.
Andri Lucas Guðjohnsen - 6
Svipuð frammistaða og hjá Brynjólfi, var lítið í boltanum og kom sér í fáar stöður.
Inn af bekknum:
Jóhann Berg Guðmundsson - 6
Aðrir spiluðu of lítið til að fá einkunn



