Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   lau 17. júní 2023 10:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Helv... djö.... dómari!
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Róbert Haraldsson er pistlahöfundur.
Róbert Haraldsson er pistlahöfundur.
Mynd: Benóný Þórhallsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það hefur ekki farið fram hjá neinum knattspyrnuáhugamanni að undanfarnar vikur og mánuði hafa miklar neikvæðar umræður átt sér stað um dómgæslu á knattspyrnuleikjum. Þjálfarar og leikmenn sem hafa sagt lítið og jafnvel varið dómara í áraraðir virðast vera komnir með nóg. Stuðningsmenn eru að syngja níðsöngva, foreldrar láta vel í sér heyra, ungir krakkar farnir að apa eftir þeim fullorðnu og dómarar hafa fengið hótanir. Þetta er greinilega ekki að stefna í rétta átt.


Eftir leik í Lengjudeildinni í fyrrakvöld þá fannst mér ég þurfa að koma því á framfæri sem ég hef haldið fram í áratugi. Umgjörð dómaramála á Íslandi er langt frá því að vera ásættanleg. Hverju er um að kenna?

Þeir sem taka þátt í knattspyrnuleik eru allir að gera sitt besta – en allir gera mistök. Ef þjálfari gerir mikið af stórum mistökum þá er afleiðingin að hann missir starf sitt á einhverjum tímapunkti. Ef leikmaður gerir mikið af stórum mistökum þá er afleiðingin að hann missir sæti sitt í liðinu eða ef hann gerir stór mistök gagnvart knattspyrnulögunum, þá er hann dæmdur í leikbann.

Ef markmaður gerir stór mistök, þá er afleiðingin að liði fær á sig mark. Ef dómari gerir stór mistök, þá er afleiðingin ENGIN – dómarinn fer bara og dæmir í næstu umferð (jafnvel í deild ofar). Eru ekki allir þeir sem taka þátt í knattspyrnuleik á jafnréttisgrundvelli hvað þetta varðar? Eru dómarar „untouchable“?

Dómarar landsins munu halda áfram að gera „stór“ mistök ef ekkert breytist, það er mannlegt að gera mistök, en það væri hægt að fækka þeim. Foreldrar kenna börnum sínum að viðurkenna mistök og biðjast afsökunar – við það lærist hlutur sem kallast „virðing“. Hver er virðingin gagnvart dómurum?

Hvað er þá til ráða? Þar sem dómari er mjög stór partur af knattspyrnuleik, þá skil ég ekki hvers vegna það er ekki meira lagt í metnað, kröfur og uppbyggingu góðra dómara. Hvar stendur knattspyrnu forystan í þessu máli? Gleymdist þessi partur í uppbyggingu knattspyrnunnar á Íslandi? Hvað eru félögin að gera? Hver er stefnan í dómaramálum?

Mitt mat er að það þarf að snúa þessu við, dómarastarfið þarf að verða eftirsóknarvert – vel launað – gerðar kröfur um árangur – metnaðarfullt og þá er hægt að gera kröfu á að það séu afleiðingar ef dómarinn gerir „stór“ mistök – nokkuð viss um að þá myndu þeir öðlast meiri virðingu og fleiri hefðu áhuga á að reyna þennan starfsvettvang. Dómari sem viðurkennir mistök er á réttri leið og á heiður skilið fyrir það, enn að fara alltaf í vörn og þurfa ekki að taka neina ábyrgð á mistökum, það er ekki leiðin til að bæta sig og á það við um nánast allt í lífinu sjálfu.

Svo er það dómgæsla í yngri flokkum þar sem oft er „verið að redda einhverjum“ – jafnvel þjálfararnir sjálfir að dæma og stjórna liði sínu eða jafnaldrar að dæma, svo leikirnir geti farið fram. Of langt mál að fara að ræða það hér.

Ég ber virðingu fyrir þeim sem „nenna“ að standa í dómgæslu, þó svo að ég hafi nú ekki verið mannanna bestur inn á vellinum sem leikmaður og sem þjálfari – kenni réttlætiskenndinni og skapinu mínu um ????. En, virðing mín gagnvart kerfinu þar sem dómarar „komast upp með“ að gera stór afdrífarík mistök án afleiðinga er engin. Veit að það er ekki dómurunum sjálfum um að kenna, heldur er það kerfið – bætum kerfið.

Það þarf að gera eitthvað og það strax svo við getum haldið áfram að njóta þessarar fallegu íþróttar – án þess að þurfa að heyra í 10 ára barni eða foreldri eða stuðningsmannasveit öskra allan leikinn. HELV...DJÖ.....DÓMARI!!!

Áfram fótbolti,

Róbert Haraldsson, kennari og knattspyrnu þjálfari.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner