Camavinga og Bastoni orðaðir við Liverpool - Ruben Neves á óskalista Man Utd - Framtíð Frank í óvissu
banner
   sun 18. janúar 2026 18:31
Ívan Guðjón Baldursson
England: Aston Villa tapaði á heimavelli
Mynd: Everton
Mynd: EPA
Aston Villa 0 - 1 Everton
0-1 Thierno Barry ('59)

Aston Villa tók á móti Everton í seinni leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og vildu heimamenn ólmir nýta sér mistök keppinauta sinna í toppbaráttunni.

Villa fékk tækifæri til að stökkva yfir Manchester City og minnka um leið bilið á milli sín og toppliðs Arsenal eftir að toppliðin misstigu sig bæði í gær.

Everton fékk fyrsta færi leiksins eftir innan við 30 sekúndur en boltinn endaði í stönginni. Villa var sterkari aðilinn eftir það en átti í erfiðleikum með að skapa sér góð færi gegn skipulögðum og vinnusömum gestum.

Staðan var markalaus í fyrri hálfleik og hélt síðari hálfleikurinn áfram í sama fari, nema að Everton nýtti eitt af örfáum færum sínum í leiknum. Framherjinn stóri Thierno Barry fylgdi þá marktilraun Dwight McNeil eftir með marki eftir vandræðagang í varnarlínu Villa.

Miðverðir Aston Villa náðu ekki að taka stjórn á löngum bolta upp völlinn. Boltinn endaði hjá McNeil sem lét vaða rétt utan vítateigs og varði Emiliano Martínez boltann út í vítateiginn, þar sem Barry var fyrstur að bregðast við til að taka forystuna.

Þetta reyndist eina mark leiksins og deilir Aston Villa áfram öðru sæti deildarinnar með Man City, þar sem bæði lið eiga 43 stig eftir 22 umferðir. Arsenal er því með sjö stiga forystu eftir svekkjandi jafntefli í Nottingham í gær.

Frábær sigur fyrir Everton sem er um miðja deild með 32 stig - aðeins fjórum stigum frá Englandsmeisturum Liverpool sem sitja í meistaradeildarsæti.
Athugasemdir
banner
banner