Camavinga og Bastoni orðaðir við Liverpool - Ruben Neves á óskalista Man Utd - Framtíð Frank í óvissu
   sun 18. janúar 2026 22:39
Ívan Guðjón Baldursson
Óttar Magnús skoraði - Jovic setti fernu
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: SPAL
Mynd: EPA
Síðustu leikjum dagsins er lokið hjá íslensku atvinnumönnunum sem spila fótbolta erlendis.

Logi Tómasson lék síðustu mínúturnar í jafntefli hjá Samsunspor í efstu deild í Tyrklandi, eftir að Andri Fannar Baldursson og félagar í Kasimpasa gerðu markalaust jafntefli fyrr í dag. Þar fékk Andri Fannar gult spjald og verður því í leikbanni í næsta leik vegna uppsafnaðra spjalda.

Samsunspor er í sjöunda sæti með 26 stig eftir 18 umferðir, sex stigum frá evrópusæti. Kasimpasa er einu stigi fyrir ofan fallsæti með 16 stig.

Í hollenska boltanum var Kristian Nökkvi Hlynsson í byrjunarliði FC Twente í sigri á útivelli gegn Heracles. Twente er í harðri baráttu um evrópusæti.

Tvö önnur Íslendingalið mættu til leiks í efstu deild í Hollandi en Nökkvi Þeyr Þórisson og Kolbeinn Birgir Finnsson voru ónotaðir varamenn.

Nökkvi Þeyr horfði á liðsfélaga sína í liði Sparta Rotterdam vinna óvæntan sigur á útivelli gegn Feyenoord. Liðin mættust í hatrömmum nágrannaslag og úr varð ótrúlega skemmtilegur sjö marka leikur, þar sem Sparta hafði betur að lokum.

Sparta er í evrópubaráttu með 29 stig alveg eins og Twente, sjö stigum á eftir Feyenoord sem situr í öðru sæti.

Kolbeinn horfði á liðsfélaga sína í FC Utrecht tapa fyrir FC Volendam. Utrecht er aðeins búið að vinna tvo af síðustu tíu leikjum sínum í öllum keppnum og er um miðja deild.

Í C-deild ítalska boltans skoraði Óttar Magnús Karlsson eina mark Renate í jafntefli gegn AlbinoLeffe. Renate er í umspilsbaráttu með 32 stig eftir 22 umferðir.

Í C-deild þýska boltans fékk Lúkas Petersson fjögur mörk á sig í stóru og óvæntu tapi varaliðs Hoffenheim gegn fallbaráttuliði TSV Havelse. Hoffenheim er sjö stigum á eftir toppliði deildarinnar.

Kjartan Már Kjartansson var ekki í hóp í sigri Aberdeen gegn Raith í skoska bikarnum og sat Sverrir Ingi Ingason allan tímann á bekknum í stóru tapi Panathinaikos í grísku deildinni.

Panathinaikos steinlá gegn AEK þar sem lokatölur urðu 4-0. Luka Jovic skoraði öll mörkin.
Athugasemdir