Ashley Young og Jamie Redknapp sátu í sjónvarpsveri Sky Sports til að ræða um úrvalsdeildarslag Aston Villa gegn Everton sem fór fram í dag.
Everton hafði óvænt betur á Villa Park og virtist Unai Emery þjálfari Aston Villa afar fúll þegar hann svaraði spurningum að leikslokum.
18.01.2026 20:23
Emery: Eigum ekki heima í topp fjórum
„Þetta var mjög skrýtið, hann leit út fyrir að vera verulega reiður. Kannski er hann pirraður út af meiðslunum þar sem John McGinn bættist við meiðslalistann í dag, eða er þetta útaf félagaskiptum Donyell Malen til Roma? Er þetta þjálfarinn að gera ákall til stjórnarinnar um að bæta nýjum leikmönnum við hópinn?" sagði Young, sem lék fyrir Aston Villa í sex ár af ferli sínum sem atvinnumaður í fótbolta.
„Þetta var skrýtið viðtal, maður hélt að hann myndi tala meira um leikinn en þessi ummæli sitja eftir í manni að það séu fimm lið í deildinni með meiri möguleika heldur en Aston Villa."
Redknapp, sem lék fyrir Liverpool og Tottenham á sínum ferli, tók undir með Young.
„Þetta er eitt af skrýtnustu viðtölum sem ég hef séð, sérstaklega þegar hann þagnaði undir lokin. Ég veit ekki að hverju hann er að ýja. Kannski er hann bara eyðilagður eftir þetta tap. Það er augljóst að Villa vantar fleiri leikmenn til að breikka hópinn," sagði Redknapp.
„Þeir voru ekki með sterkan bekk í dag og eru að glíma við meiðslavandræði. Þeir verða að styrkja sig í nokkrum stöðum en þá helst á miðsvæðinu útaf meiðslunum."
Athugasemdir





