Camavinga og Bastoni orðaðir við Liverpool - Ruben Neves á óskalista Man Utd - Framtíð Frank í óvissu
   sun 18. janúar 2026 19:10
Ívan Guðjón Baldursson
Þýskaland: Union Berlin sótti stig til Stuttgart
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Það fóru tveir leikir fram í efstu deild þýska boltans í dag þar sem Stuttgart tók á móti Union Berlin í fyrri leik dagsins.

Leikurinn í Stuttgart reyndist nokkuð jafn þar sem hart var barist en heimamenn náðu forystunni í upphafi síðari hálfleiks þegar Chris Fuhrich skoraði með laglegu skoti við vítateigslínuna.

Gestirnir frá Berlín fundu jöfnunarmark á lokakaflanum. Jeong Woo-yeong var þar á ferðinni þegar hann var skilinn eftir einn og óvaldaður við vítapunktinn. Hann fékk lága sendingu frá vinstri vængnum og kláraði með föstu skoti til að bjarga jafntefli.

Stuttgart er í fjórða sæti eftir þetta jafntefli, með 33 stig eftir 18 umferðir. Union Berlin er með 24 stig.

Augsburg mætti Freiburg í seinni leik dagsins og var staðan markalaus eftir leiðinlegan fyrri hálfleik. Seinni hálfleikurinn bauð hins vegar upp á meiri skemmtun.

Heimamenn í Augsburg komust í tveggja marka forystu skömmu eftir leikhlé þegar Alexis Claude-Maurice og Elvis Rexhbecaj skoruðu með stuttu millibili.

Það tók Freiburg tæpan stundarfjórðung að svara fyrir sig. Yuito Suzuki kom inn af bekknum á 56. mínútu og var búinn að minnka muninn fjórum mínútum síðar, skömmu áður en Igor Matanovic gerði jöfnunarmark.

Þeir skoruðu mörkin sín með afar stuttu millibili, rétt eins og andstæðingarnir í liði Augsburg höfðu gert fyrr í leiknum, en tókst ekki að gera sigurmark. Lokatölur urðu því 2-2.

Augsburg er þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið, með 16 stig eftir 18 umferðir. Freiburg er með 24 stig.

Stuttgart 1 - 1 Union Berlin
1-0 Chris Fuhrich ('59 )
1-1 Woo-Yeong Jeong ('83 )

Augsburg 2 - 2 Freiburg
1-0 Alexis Claude-Maurice ('47 )
2-0 Elvis Rexhbecaj ('49 )
2-1 Yuito Suzuki ('60 )
2-2 Igor Matanovic ('62 )
Athugasemdir
banner
banner