Ítalski fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano segir nú allt benda til þess að Kobbie Mainoo verði áfram hjá Manchester United.
Mainoo vildi komast frá United í þessum glugga á meðan Ruben Amorim var stjóri félagsins.
Hann fékk fá tækifæri til að sanna sig og gekk það svo langt að bróðir hans mætti á United-leik í bol sem stóð á 'Free Kobbie Mainoo' eða Frelsið Kobbie Mainoo.
Englendingurinn vildi komast annað og fá stöðugri spiltíma til að eiga möguleika á að komast á HM, en svo virðist sem honum hafi snúist hugur eftir að Amorim var látinn fara.
Michael Carrick var ráðinn út þetta tímabil og ætlar hann að treysta á krafta Mainoo sem byrjaði í 2-0 sigrinum á nágrönnum þeirra í Manchester City um helgina.
Mainoo er í miklum metum hjá Carrick og er útlit fyrir að hann muni fá stærra hlutverk í liðinu.
Miðjumaðurinn er 20 ára gamall og samningsbundinn United til 2027, en næst á dagskrá hjá United er að ræða við hann um nýjan samning.
Athugasemdir



