Það hefur verið ýmislegt að frétta hjá FHL í vetur þar sem félagið er meðal annars búið að ráða inn nýjan aðstoðarþjálfara og styrktarþjálfara, auk þess að semja við mikilvæga leikmenn.
Halldór B Bjarneyjarson er tekinn við sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna og aðalþjálfari 2. flokks.
Halldór er fæddur 1993 og hefur á síðustu árum starfað í þjálfarateymi karlaliðs KFA. Hann er með BS gráðu í íþrótta- og hreyfifræði og sem stendur stundar hann nám í kennslufræðum sem lýkur næsta vor.
Kristófer Páll Viðarsson er ráðinn sem styrktarþjálfari liðsins en hann er sá fyrsti sinnar tegundar hjá félaginu. Með þessari ráðningu vill FHL leggja aukna áherslu á að efla líkamlega getu, bæta frammistöðu og draga úr meiðslum hjá leikmönnum sínum.
Reynslumesti leikmaður FHL hefur gert nýjan samning við félagið, hún Viktoría Einarsdóttir sem er fædd 2002. Hún er miðvörður og er með tæpa 200 keppnisleiki að baki fyrir FHL og Einherja.
Hin tvítuga Katrín Edda Jónsdóttir er einnig búin að endurnýja samninginn sinn, en hún á yfir 100 leiki að baki fyrir FHL og er því einn af leikjahæstu leikmönnum liðsins. Hún hefur síðustu tímabilin spilað í bakverði en er afar fjölhæf og getur einnig spilað á kanti eða miðju.
Embla Fönn Jónsdóttir er 18 ára markvörður með 30 leiki að baki fyrir FHL sem verður áfram hjá félaginu eftir að hafa skrifað undir samning. Hún kom sterk inn í síðustu leikjum meistaraflokks á liðnu tímabili og ætlar að eigna sér byrjunarliðssætið komandi sumar.
Christa Björg Andrésdóttir, Matthildur Klausen og Hrafnhildur Eik Reimarsdóttir eru einnig búnar að skrifa undir nýja samninga.
Hrafnhildur er yngst, fædd 2009, en á þrátt fyrir það 38 leiki að baki fyrir meistaraflokk og getur spilað sem bakvörður eða miðjumaður.
Christa er sóknarþenkjandi miðjumaður sem er góð í að tengja miðju við sókn. Hún er leikin á boltann og var einn af bestu leikmönnum efstu deildar í 2. flokki í fyrra.
Matthildur er bakvörður og kantur en hún er að ná sér eftir erfið meiðsli sem héldu henni frá stærstan hluta síðasta tímabils. Hún og Christa eru báðar fæddar 2006.
Athugasemdir



