fös 20. nóvember 2020 13:33
Magnús Már Einarsson
Lampard í viðtali við Síminn Sport: Enginn vill spila hræddur
Mynd: Getty Images
Tómas Þór Þórðarson hjá Síminn Sport tók í vikunni tíu mínúta viðtal við Frank Lampard, stjóra Chelsea. Boltinn byrjar að rúlla aftur í ensku úrvalsdeildinni um helgina en Chelsea mætir Newcastle á morgun.

Tómas ræddi við Lampard um byrjun tímabilsins, sumarkaup Chelsea og margt fleira. Tómas spurði Lampard meðal annars hvort að hann tali öðruvísi við leikmenn sína í dag heldur en stjórar gerðu á hans tíma sem leikmaður,

„Mér finnst þetta tvímælalaust hafa breyst í dag. Mér finnst líka sumar sögurnar af öskrum, látum og neikvæðni til að drífa menn áfram vera ýktar og til þess að vekja athygli. Mér finnst merkustu knattspyrnustjórarnir af síðustu kynslóð, þeir sem ég spilaði hjá og náðu mestu út úr mér og samherjum mínum voru þeir sem voru jákvæðir og leituðu látlaust leiða til að gera okkur betri," sagði Lampard.

„Stundum verður maður að tala afdráttarlaust til að koma einhverju til skila en dags daglega reyni ég að vera jákvæður við leikmennina og tala eins hreinskilnislega og ég get. Það er ekki alltaf mjög auðvelt. Stundum er hreinskilnislegasta svarið ekki það skemmtilegasta. Maður reynir bara að útskýra stóra samhengið fyrir mönnum."

„Í dag reynir maður vissulega að bæta menn með því að vera jákvæður. Ég held að þá sé andinn miklu betri. Enginn vill spila hræddur undir stjórn knattspyrnustjóra sem er neikvæður og alltaf öskrandi. Ég reyni að vera ekki þannig og er raun er ekki þannig persónuleiki."


Hér að neðan má horfa á viðtalið í heild.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner