Mateta og Abraham á lista Villa - Tveir leikmenn orðaðir við Man Utd - Tottenham vill fá Curtis Jones
   mið 21. janúar 2026 22:03
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Liverpool með annan fótinn í 16-liða úrslit - Lewandowski skoraði fyrir bæði lið
Liverpool er komið langleiðina inn í 16-liða úrslitin
Liverpool er komið langleiðina inn í 16-liða úrslitin
Mynd: EPA
Frimpong skoraði annað mark Liverpool
Frimpong skoraði annað mark Liverpool
Mynd: EPA
Moises Caicedo var hetja Chelsea
Moises Caicedo var hetja Chelsea
Mynd: EPA
Harry Kane skoraði tvö en er eflaust svekktur með að hafa klikkað á þrennunni
Harry Kane skoraði tvö en er eflaust svekktur með að hafa klikkað á þrennunni
Mynd: EPA
Englandsmeistarar Liverpool eru komnir með annan fótinn í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir að hafa unnið 3-0 útisigur á Marseille í 7. umferð deildarkeppninnar í kvöld. Bayern München er búið að tryggja sér farseðilinn í 16-liða úrslit ásamt Arsenal.

Liverpool var að vinna fimmta leik sinn í deildarkeppninni en þeir töldu sig hafa komist í forystu á 23. mínútu er Dominik Szoboszlai kom með fyrirgjöfina frá hægri inn á franska sóknarmanninn sem skoraði.

Ekitike var rétt fyrir innan þegar sendingin kom og staðfesti VAR það í kjölfarið.

Fyrsta markið kom á fullkomnum tíma fyrir Liverpool eða í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Liverpool fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan sem Szoboszlai setti undir vegginn og neðst í hægra hornið. Geronimo Rulli, markvörður Marseille, var aðeins of seinn að skutla sér. Puttarnir náðu að sleikja boltann en úlnliðurinn ekki nógu sterkur og fóru Poolarar með eins marks forystu inn í hálfleikinn.

Tuttugu mínútum fyrir leikslok gerðu Liverpool-menn annað markið er Jeremie Frimpong keyrði inn hægra megin og alveg upp að endalínu áður en hann setti boltann fyrir en boltinn fór af Rulli og í netið. Markið skráð sem sjálfsmark enda var sendingin eða skotið frá Frimpong ekki á leið í netið.

Á lokasekúndum leiksins kom síðan þriðja markið eftir frábær spil gestanna. Þeir spiluðu vel sín á milli og kom boltinn á Ryan Gravenberch sem keyrði frá miðsvæðinu og að teignum áður en hann lagði boltann til hliðar á Cody Gakpo sem klíndi boltanum í hægra hornið.

Góður 3-0 sigur hjá Liverpool sem er komið með 15 stig í 4. sæti og svo gott sem búið að tryggja sæti sitt í 16-liða úrslitum, en það getur endanlega staðfest það þegar liðið tekur á móti Qarabag í lokaumferðinni.

Bayern München er hins vegar búið að tryggja sæti sitt eftir 2-0 sigur á USG frá Belgíu.

Harry Kane skoraði bæði mörk Bæjara. Fyrra eftir sendingu Michael Olise og seinna úr vítaspyrnu. Kim Min-Jae, varnarmaður Bayern, sá sitt annað gula spjald og þar með rautt hálftíma fyrir leikslok.

Tíu Bæjarar gátu bætt við þriðja markinu og Kane í færi til þess að fullkomna þrennuna eftir að varnarmaður USG handlék boltann í teignum. Kane þrumaði vítaspyrnunni hins vegar í stöngina og þá klikkaði Luis Díaz úr frákastinu.

Bayern samt sem áður sátt með sigurinn sem hefði getað orðið töluvert stærri. Liðið er í öðru sæti með 18 stig og eins og áður kom fram komið í 16-liða úrslit.

Það var þolinmæðisvinna hjá Chelsea sem marði 1-0 sigur á Pafos frá Kýpur.

Þrátt fyrir mikla yfirburði kom sigurmarkið ekki fyrr en á 78. mínútu leiksins. Það gerði Ekvadorinn Moises Caicedo með skalla eftir hornspyrnu.

Chelsea er í 8. sæti með 13 stig en það mætir Ítalíumeisturum Napoli á útivelli í lokaumferðinni.

Newcastle vann öruggan 3-0 sigur á PSV á St. James' Park.

Yoane Wissa skoraði á 8. mínútu eftir hraða skyndisókn Newcastle-manna. Joelinton lagði boltann inn á Wissa sem setti boltann í autt netið.

Anthony Gordon var næstur á ferðinni á 30. mínútu eftir hræðileg varnarmistök. Varnarmaðurinn missti boltann of langt frá sér og tókst Wissa að tækla boltann til hliðar á Gordon sem bætti við öðru markinu.

Harvey Barnes gulltryggði sigurinn hálftíma fyrir leikslok eftir laglegt einstaklingsframtak. Hann tók á móti löngum bolta, fór illa með varnarmennina áður en hann setti boltann í hægra hornið.

Newcastle er í 7. sæti með 13 stig en fær það verðuga verkefni að mæta Evrópumeisturum PSG í París í lokaumferðinni. Newcastle er að minnsta kosti búið að tryggja sæti í umspilið sem er sögulegt því þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem félagið nær þeim áfanga.

Spánarmeistarar Barcelona voru í basli með tékkneska liðið Slavía Prag en hafði á endanum 4-2 sigur í Tékklandi.

Vasil Kusej kom Slavíu Prag óvænt yfir á 10. mínútu en Fermín Lopez jafnaði og kom síðan Barcelona yfir á átta mínútna kafla í síðari hluta fyrri hálfleiks.

Undir lok hálfleiksins varð Robert Lewandowski fyrir því óláni að skora sjálfsmark er hann skallaði boltann í eigið net eftir hornspyrnu.

Í síðari hálfleik tókst Börsungum að ganga frá leiknum. Dani Olmo skoraði á 63. mínútu og bætti Lewandowski síðan upp fyrir sjálfsmarkið með því að tryggja sigurinn aðeins átta mínútum síðar.

Sigurinn kom Barcelona upp í 9. sæti með 13 stig. Barcelona spilar við PSG á Nou Camp í lokaumferðinni og verður það að teljast ansi líklegt að liðið komist beint áfram í 16-liða úrslitin.

Juventus vann þá Benfica 2-0 með mörkum frá Khephren Thuram og Weston McKennie á meðan Athletic Bilbao vann 3-2 baráttusigur á Atalanta í Bergamó.

Slavia Praha 2 - 4 Barcelona
1-0 Vasil Kusej ('10 )
1-1 Fermin Lopez ('34 )
1-2 Fermin Lopez ('42 )
2-2 Robert Lewandowski ('44 , sjálfsmark)
2-3 Dani Olmo ('63 )
2-4 Robert Lewandowski ('71 )

Atalanta 2 - 3 Athletic
1-0 Gianluca Scamacca ('16 )
1-1 Gorka Guruzeta ('58 )
1-2 Nico Serrano ('70 )
1-3 Robert Navarro ('74 )
2-3 Nikola Krstovic ('88 )

Juventus 2 - 0 Benfica
1-0 Kephren Thuram ('55 )
2-0 Weston McKennie ('64 )
2-0 Vangelis Pavlidis ('81 , Misnotað víti)

Chelsea 1 - 0 Pafos FC
1-0 Moises Caicedo ('78 )

Newcastle 3 - 0 PSV
1-0 Yoane Wissa ('8 )
2-0 Anthony Gordon ('30 )
3-0 Harvey Barnes ('65 )

Bayern 2 - 0 St. Gilloise
1-0 Harry Kane ('52 )
2-0 Harry Kane ('55 , víti)
2-0 Harry Kane ('81 , Misnotað víti)
Rautt spjald: Min-Jae Kim, Bayern ('63)

Marseille 0 - 3 Liverpool
0-1 Dominik Szoboszlai ('45 )
0-2 Geronimo Rulli ('72 , sjálfsmark)
0-3 Cody Gakpo ('90 )
Athugasemdir
banner