Qarabag frá Aserbaísjan vann magnaðan 3-2 sigur á Eintracht Frankfurt í 7. umferð í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld en sigurmarkið kom í blálokin. Liðið er svo gott sem komið áfram í umspilið.
Qarabag hefur komið verulega á óvart í deildarkeppninni en það vann bæði Benfica og FCK, og náði svo sögulegu jafntefli gegn Chelsea.
Liðið á raunverulegan möguleika á að komast áfram í umspilið og er nær þeim draumi eftir sigurinn í kvöld.
Kólumbíumaðurinn Camilo Duran kom heimamönnum yfir á 4. mínútu en hinn efnilegi Can Uuzun jafnaði aðeins nokkrum mínútum síðar.
Fares Chaibi kom Frankfurt-mönnum yfir með marki úr vítaspyrnu á 78. mínútu en þetta efldi Qarabag sem jafnaði tveimur mínútum síðar með öðru marki Duran.
Þegar komið var á fjórðu mínútu í uppbótartíma skoraði síðan varnarmaðurinn Bahlul Mustafazada sigurmarkið með föstu skoti í nærhornið eftir fyrirgjöf frá hægri.
Ótrúlega mikilvægt mark hjá Qarabag sem er með 10 stig í 17. sæti sem mun líklega duga til að komast í umspil en liðið heimsækir Liverpool í lokaumferðinni. Eintracht Frankfurt er í 33. sæti með 4 stig og á ekki lengur möguleika á að komast áfram.
Galatasaray og Atlético Madríd gerðu 1-1 jafntefli í Tyrklandi. Bæði mörk leiksins komu á fyrstu tuttugu mínútum leiksins.
Guiliano Simeone, sonur þjálfarans Diego SImeone, kom Atlético yfir á 4. mínútu en sjálfsmark Marcos Llorente á 20. mínútu jafnaði leikinn.
Atlético fékk nokkur ágætis færi til að skora fleiri mörk en sætti sig við stig á erfiðum útivelli.
Atlético er í 8. sæti með 13 stig, sem er síðasta sætið sem gefur beina þátttöku inn í 16-liða úrslitin en Galatasaray í 16. sæti með 10 stig og í góðri stöðu um að komast í umspilið.
Galatasaray 1 - 1 Atletico Madrid
0-1 Giuliano Simeone ('4 )
1-1 Marcos Llorente ('20 , sjálfsmark)
Qarabag 3 - 2 Eintracht Frankfurt
1-0 Camilo Duran ('4 )
1-1 Can Uzun ('10 )
1-2 Fares Chaibi ('78 , víti)
2-2 Camilo Duran ('80 )
3-2 Bahlul Mustafazada ('90 )
Athugasemdir




