mið 21. september 2022 09:30
Brynjar Ingi Erluson
Aldrei í myndinni að fara heim - „Það er ástæðan fyrir því að ég fór til Lyngby"
Alfreð Finnbogason samdi við Lyngby í ágúst
Alfreð Finnbogason samdi við Lyngby í ágúst
Mynd: Lyngby
Alfreð átti erfitt með að koma sér á ról hjá Augsburg á síðustu árum sínum þar
Alfreð átti erfitt með að koma sér á ról hjá Augsburg á síðustu árum sínum þar
Mynd: Augsburg
Tólf ár eru síðan Alfreð spilaði síðast á Íslandi
Tólf ár eru síðan Alfreð spilaði síðast á Íslandi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta snýst núna um að spila leiki reglulega og eitthvað sem ég hef ekki gert síðustu tvö eða þrjú tímabil og það eru augljósar ástæður fyrir því," sagði Alfreð Finnbogason við Fótbolta.net er hann var spurður út í ástæður hans fyrir því að semja við danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby.

Alfreð, sem er 33 ára, hefur spilað í mörgum toppdeildum um allan heim en í sumar varð hann samningslaus eftir að hafa spilað fyrir Augsburg í Þýskalandi.

Síðustu ár hefur Alfreð verið í miklum erfiðleikum með að halda sér heilum. Þegar hann kom sér af stað spilaði hann vel, en alltaf kom bakslag.

Eftir erfið meiðsli getur reynst flókið að sannfæra félög um að taka áhættuna. Hann ræddi við félög erlendis en þegar komið var inn í ágústmánuð var hann enn án félags.

Alfreð fékk að æfa með Lyngby fyrr í sumar en þá stóð aldrei til að hann myndi semja við lærisveina Freys Alexanderssonar.

„Það er mjög gott. Þetta var skrítið sumar og í fyrsta sinn á ferlinum sem ég er frír leikmaður og í raun og veru ekkert sem undirbýr þig fyrir það. Ég vissi að ég yrði að vera tilbúinn hvenær sem er til að byrja með nýju liði. Ég var tilbúinn 1. júlí, 1. ágúst og svo einhvern vegin leið tíminn og ekki það rétt að koma. Það var mikið um spjöll og svo fóru hlutir lengra en aðrir ekki."

„Á endanum, undir lokin, var í fyrsta sinn sem það var raunhæft fyrir þá að sækja mig. Það var ekki planið upphaflega hjá þeim eða mér og ég vissi að þetta væri umhverfi sem ég þekkti og þjálfari sem ég þekki og borg sem allir Íslendingar þekkja. Ég vissi að ég yrði ánægður þar og á endanum fannst mér það þegar það fór að líða á gluggann að ég vildi fara eitthvert sem ég væri viss um að ég væri ánægður og hingað til er ég það en auðvitað viljum við vera með fleiri stig en það er allt í vinnslu,"
sagði Alfreð við Fótbolta.net.

Lyngby er nýliði í dönsku úrvalsdeildinni en liðð er enn í leit að fyrsta sigrinum eftir tíu leiki. Það situr á botninum með 3 stig en Alfreð er viss um að það geti snúið við taflinu.

„Hún er góð því Lyngby veit alveg hvar þeir standa. Það vill enginn vera í fallbaráttu en danska deildin er ótrúlega jöfn. Ef maður skoðar hvaða lið eru í efstu sætum og neðri hlutunum, þetta snýr svolítið öfugt. Mörg lið sem eru í neðri sex ættu að vera í toppsætunum. Ég sá alla leikina í byrjun tímabilsins hjá Lyngby og þetta voru smáatriði að valda því að þeir voru ekki að ná í fleiri stig og ég hefði ekki farið þangað ef ég hefði ekki trúð því sjálfur að Lyngby gæti haldið sér í deildinni."

„Síðan ég kom er mjög stutt á milli sigurs á milli jafntefli og sigur og jafntefli og taps. Það er engin galdralausn, bara halda áfram og vonast til að snúa þessu við. Við erum búnir að vera óheppnir með meiðsli líka og margir hlutir sem koma saman. Maður finnur það að klúbburinn treystir á Freysa og leikmannahópinn og það er góður andi þrátt fyrir að við séum neðstir en það kemur ekkert í stað fyrir sigra í fótbolta og erfitt að rífa sig í gang ef við vinnum ekki leiki."


Aldrei í myndinni að fara heim

Alfreð var spurður út í áhuga frá Íslandi en hann segir það aldrei hafa komið til greina. Framherjinn vildi ekki opna á þann möguleika enda telur hann sig eiga nóg inni í atvinnumennsku.

Nú vill hann koma sér á gott ról, spila reglulega og njóta þess að spila fótbolta á nýjan leik.

„Nei, í rauninni ekki. Það var enginn sem meldaði sig og ég var ekkert að opna á það. Minn hugur var ennþá úti og langar að spila næstu árin úti. Þetta snýst núna um að spila leiki reglulega og eitthvað sem ég hef ekki gert síðustu tvö eða þrjú tímabil og það eru augljósar ástæður fyrir því. Maður náði aldrei að binda saman fimm, sex, sjö eða átta leiki og þá fyrst getur þú sýnt þínar bestu hliðar þegar þú ert kominn í toppstand, leikform og þá gerast alltaf góðir hlutir. Það er ástæðan fyrir því að ég fór til Lyngby, að njóta þess að spila fótbolta og ég veit að ég mun ekki gera það að eilífu og hingað til er ég að gera það," sagði hann í lokin.
Alfreð Finnboga: Ekki það að ég var í pásu eða gaf ekki kost á mér
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner