Cunha færist nær Man Utd - Manchester liðin vilja Costa - Aston Villa íhugar að selja Ollie Watkins
   þri 22. apríl 2025 11:30
Elvar Geir Magnússon
Fékk þá tilfinningu að BBC vildi losna við sig
Mynd: EPA
Gary Lineker segist hafa fengið þá tilfinningu að BBC vildi losna við sig úr Match of the Day þættinum þegar hann var í viðræðum um nýjan samning á síðasta ári.

Lineker tilkynnti í nóvember að hann myndi láta af störfum sem umsjónarmaður þáttarins en hann mun þó halda áfram að vinna fyrir BBC við útsendingar frá HM og FA-bikanum.

Lineker er einn reyndasti sjónvarpsmaður í bransanum og gríðarlega vinsæll. Hann var spurður að því af hverju hann hefði ákveðið að hætta í Match of the Day.

„Tja, kannski vildu þeir að ég myndi hætta. Það var mín tilfinning," svaraði Lineker.

„Það er kannski kominn tími. Ég hef gert þetta lengi. Ég ætlaði mér samt að gera einn samning í viðbót. En að lokum fékk ég þá tilfinningu að þeir vildu breyta þættinum. Þeir vildu fá inn nýtt fólk."

Lineker hefur fengið gagnrýni fyrir að tjá sig um pólitísk mál á samfélagsmiðlum sínum og hann var settur í leyfi tímabundið 2023 þegar hann gagnrýndi innflytjendastefnu ríkisstjórnarinnar.

Kelly Cates, Gabby Logan og Mark Chapman hafa verið ráðin sem umsjónarfólk Match of the Day og taka við á næsta tímabili. Þrjár útgáfur eru af þættinum; Match of the Day á laugardagskvöldum, Match of the Day 2 á sunnudagskvöldum og svo eru Meistararadeildarþættir þegar leikið er í keppninni.
Athugasemdir
banner