Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   fös 22. júlí 2022 12:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Erum litla Ísland en við getum afrekað stóra hluti
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Icelandair
Ísland var taplaust á EM en komst ekki áfram.
Ísland var taplaust á EM en komst ekki áfram.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Karólína Lea svekkt eftir lokaleikinn á EM.
Karólína Lea svekkt eftir lokaleikinn á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla er með betri miðvörðum heimsins.
Glódís Perla er með betri miðvörðum heimsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir.
Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þetta lið getur afrekað stóra hluti.
Þetta lið getur afrekað stóra hluti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tilfinningin eftir Evrópumótið 2022 er allt öðruvísi en fyrir fimm árum síðan.

Fyrir fimm árum töpuðum stelpurnar okkar öllum sínum leikjum á EM og áttu ekki mikið meira skilið en það. Núna fer liðið taplaust í gegnum mótið og við vorum í raun bara klaufar að komast ekki áfram.

Við vorum í mjög erfiðum riðli og að mínu mati er ljóst að liðið er taka skref fram á við. Miðað við frammistöðu þá áttum við klárlega skilið að vera á meðal átta sterkustu þjóða Evrópu.

Það er súrt að horfa til baka á leikinn gegn Belgíu þar sem við vorum heilt yfir mikið betri. Við áttum klárlega að vinna þann leik en tækifærið til þess rann úr okkar höndum. Þetta var stöngin út í þetta skiptið, við nýttum ekki færin okkar.

Ég hef fulla trú á því að liðið okkar muni koma sterkara til baka. Þetta eru vonbrigði - auðvitað - en stelpurnar og öll þau sem koma að liðinu mega vera stolt af frammistöðunni og framgöngunni á þessu móti.

Auðvitað hefði verið gaman að komast í átta-liða úrslit en mótlætið, það styrkir líka og það er hægt að nýta það fyrir framhaldið með því að læra á því svo næsta mót verði stöngin inn.

Upp eru að koma leikmenn sem geta verið með þeim bestu í heiminum innan fárra ára. Sveindís Jane Jónsdóttir er ótrúlega spennandi leikmaður og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir stimplaði sig svo sannarlega inn á þessu móti sem einn af mikilvægari leikmönnum liðsins. Þær eru báðar með alla hæfileika og gæði til þess að komast í fremstu röð í heiminum.

Svo eru aðrir spennandi leikmenn að koma upp; Amanda Andradóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Guðný Árnadóttir eru allar í kringum tvítugt og voru að stíga sín fyrstu skref á stórmóti. Svo er Cecilía Rán Rúnarsdóttir, sem er 18 ára, einn efnilegasti markvörður í heimi. Hún fékk að upplifa stórmót í fyrsta sinn þrátt fyrir að vera meidd.

Þessir leikmenn geta lært svo mikið af frábærum reynslumeiri leikmönnum sem eru tilbúnar að gefa mjög mikið af sér; leikmönnum sem hafa verið í fremstu röð síðustu árin og spilað í sterkustu deildum heims.

Um er að ræða blöndu sem getur verið mjög svo spennandi.

Megum ekki vanmeta okkur
Þetta lið er stútfullt af hæfileikum og ef haldið er rétt á spilunum, þá getum við farið langt.

Mér fannst það góður punktur sem kom fram í síðasta EM Innkastinu sem var tekið upp í Crewe á dögunum. Þar var komið inn á það að tilfinningin sé sú að liðið vanmeti sjálft sig svolítið. Við erum með baráttuna, dugnaðinn og hlaupagetuna upp á tíu, en sendingarhlutfall okkar var ekki gott á mótinu - alls ekki - og það er eitthvað sem verður að bæta. Leikmennirnir geta betur í þeim þætti leiksins og þær verða að hafa trú á því.

Liðið verður að þora að finna miðjuna og koma henni inn í leikinn, það hjálpar mjög mikið og sást það vel í leiknum gegn Frakklandi. Við þurfum líka ekki alltaf að fara í úrslitasendinguna strax, stundum er betra að róa leikinn niður og reyna að ná stjórn á boltanum.

Mér fannst liðið sýna það sérstaklega í seinni hálfleiknum gegn Frakklandi á mánudag hversu góðar þær geta verið, hversu svalar þær geta verið á boltanum. Sendingarhlutfallið í þeim leik var langbest af öllum þremur leikjum mótsins.

„Við þurfum ekki alltaf að fara í löngu boltana. Ef við getum spilað svona á móti Frakklandi, þá getum við spilað fótbolta á móti flestum öðrum þjóðum," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, eftir lokaleikinn á EM í ár.

Getum afrekað stóra hluti
Það er rétt hjá Söru. Og þó við séum litla Ísland, þá erum við með frábært lið og við verðum að trúa að við getum afrekað stóra hluti; leikmennirnir, þjálfararnir og stuðningsfólkið - það er allt til staðar til þess að búa til eitthvað frábært, jafnvel stórfenglegt.

Ég er með svipaða tilfinningu fyrir stelpunum okkar og strákunum okkar í handboltanum. Liðið er að taka mjög jákvæð skref og það er útlit fyrir að það sé eitthvað spennandi að gerast; í liðinu eru leikmenn í heimsklassa í bland við aðra öfluga leikmenn og svo eru að koma upp ungir leikmenn sem geta komist á toppinn.

Næst er það undankeppni HM. Þar geta stelpurnar okkar skrifað söguna með því að komast á heimsmeistaramótið í fyrsta sinn. Það væri magnað.

Svo hlýtur stefnan að vera sett á að komast upp úr riðlakeppni á stórmóti, hvort sem það er á EM eða HM. Við höfum einu sinni gert það áður og þetta lið sem er núna getur það 100 prósent. Við vorum á okkar fjórða stórmóti og við verðum að líta á okkur þannig, við erum ekkert lítil þjóð lengur í kvennaboltanum.

Ef við komumst áfram úr riðlakeppni á stórmóti, þá getur allt gerst eins og mörg dæmi eru um.

Ég trúi á þetta öfluga lið, og ég trúi því að þessar miklu fyrirmyndir muni afreka stórkostlega hluti á næstu árum, bæði innan sem utan vallar.

Áfram Ísland, alltaf.

Sjá einnig:
Sara stolt af liðinu - „Tilfinningin er önnur núna"
EM Innkastið - Markmiðið náðist ekki en þjóðin er stolt
Athugasemdir
banner
banner