Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   þri 22. október 2024 23:37
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Valur eyddi færslunni um metsöluna þar sem hún er ekki frágengin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Valur tilkynnti síðasta föstudag að sænska félagið Häcken væri búið að kaupa landsliðsmarkvörðinn Fanneyju Ingu Birkisdóttur. Sagt var í tilkynningu á samfélagsmiðlum að um upphæð væri að ræða sem hefði aldrei sést áður í kvennafótboltanum á Íslandi.

Fanney Inga er í dag aðalmarkvörður landsliðsins og hefur varið mark Vals undanfarin tvö ár. Hún er núna stödd í Austin Texas með íslenska landsliðinu sem mætir því bandaríska í tveimur vináttulandsleikjum á næstu dögum.

Undirritaður ræddi við Fanneyju í kvöld og var grunlaus um að skiptin væru ekki frágengin. Eftir samtalið við markvörðinn sá svo undirritaður að tilkynningu Vals hefði verið eytt. Hér að neðan má sjá fréttina sem unnin var úr tilkynningunni.

Spurningar fréttamanns eru feitletraðar.

Þú ert búin að semja við Häcken, hvernig var eiginlega aðdragandinn að þessu?

„Það er ekki alveg komið í hús, það er ekki alveg búið að ganga frá þessu þannig ég get lítið sagt um þetta," sagði Fanney.

En þú hefur farið út til Häcken, skoðað aðstæður og svoleiðis, eða hvað?

„Ég fór á reynslu hjá þeim fyrir þremur árum. Æfingasvæðið er það sama held ég, nema búið að gera það aðeins betur upp. Þetta er flottur klúbbur og heiður að það sé áhugi."

Valur gaf út að þú sért að fara þangað, er þetta ekki svolítið skrítin staða?

;,Ég get ekki sagt mikið um það."

Ertu að gera þér vonir um að fara til Häcken?

„Mig langar allavega að komast út og spila í sterkari deild, hafa fótbolta sem atvinnu. Mér finnst það mjög spennandi hugsun."

Er komið tilboð í þig frá Häcken?

„Það eru einhverjar viðræður í gangi á milli félaganna."

Og værir þú spennt að fara til sænska félagsins ef þau ná samkomulagi?

„Já, mér þætti það mjög spennandi. Þetta er topplið í Svíþjóð og fór langt í Evrópu í fyrra og eru í Evrópusæti núna. Mér finnst það mjög spennandi," sagði Fanney sem kvaðst ekki vita hvað vantaði upp á svo félagaskiptin væru frágengin.

Ef skiptin til Häcken ganga ekki upp, leitar hugurinn samt út?

„Já, mig langar að fara og spila á hærra stigi. En mér finnst samt mjög spennandi hlutir í gangi í Val og fullt af frábærum leikmönnum. Þannig ef allt myndi fara í rugl, þá er það ekkert hræðilegur staður til að vera á, mjög flott umhverfi."

Það er EM næsta sumar, spilar það inn í hugsunina að vilja fara út núna og spila á hærra stigi?

„Já, það hefur áhrif að það sé Evrópumót framundan. Ég vil spila á sem hæsta stigi til að undirbúa mig fyrir það. Auðvitað langar mann alltaf að spila fyrir þjóðina sína, það spilar inn í," sagði landsliðsmarkvörðurinn.

Nánar var rætt við Fanneyju um landsliðið og komandi leiki og birtist sá hluti viðtalsins á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner