Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
banner
   fös 22. desember 2023 12:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Áhugi á Svenna Sigga erlendis - „Eitthvað sem ég hef beðið eftir í mörg ár"
Sveinn Sigurður Jóhannesson.
Sveinn Sigurður Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik í sumar.
Í leik í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Tekur í spaðann á Ólafi Karli Finsen.
Tekur í spaðann á Ólafi Karli Finsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Stjörnunni 2017.
Í leik með Stjörnunni 2017.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Ég er bara að skoða það sem er upp á borði hjá mér," segir markvörðurinn Sveinn Sigurður Jóhannesson í samtali við Fótbolta.net.

Markvörðurinn varð samningslaus eftir að síðasta tímabili lauk og vill Valur halda honum. Sveinn hefur hins vegar hafnað því sem félagið hefur boðið hingað til.

Sveinn er 28 ára og hefur verið hjá Val síðustu sex tímabil. Hann var varamarkvörður fyrir Frederik Schram á liðinni leiktíð en stóð sig afar vel í úrslitakeppninni þegar Frederik var fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Hann segir að það sé áhugi bæði hér á Íslandi og einnig erlendis. Þetta er eitthvað sem hann er að skoða núna.

„Það er bæði áhugi innanlands og erlendis. Það er það sem ég er að skoða. Það eru ekki margir dagar í að ég ákveði hvað ég geri. Það er staðan."

„Það er aðallega Svíþjóð. Það var eitthvað sem ég skoðaði þegar ég fór í samningaviðræður við Val. Eftir hvernig tímabilið fór var það eitthvað sem mér langaði að skoða. Það kom svo í ljós að það voru möguleikar," segir Sveinn.

Þarf að finna sameiginlegan grundvöll
Hann kveðst ekki vera búinn að loka á það að vera áfram í Val, en það þurfi að finna sameiginlegan grundvöll svo það verði að veruleika. Valur æfir oft snemma dags og það er því erfitt að vinna dagvinnu með.

„Ég er ekki búinn að loka á Val, alls ekki. Það þarf bara að finna einhvern sameiginlegan grundvöll. Það væri geggjað ef þetta myndi ganga upp. Ég er alls ekki búinn að loka á Val og hef verið að mæta á æfingar með þeim til að halda mér í standi. Þetta kemur vonandi í ljós á allra næstu dögum," segir Sveinn.

„Æfingatíminn flækir þetta. Maður er að fleygja dagvinnunni fyrir rútuna og það flækir þetta. Það eru algjör forréttindi að geta verið í þessu ef þetta gengur upp launalega, að vera í þessu á þessum tíma. Þetta byrjaði hjá Heimi og Addi hefur komið með marga flotta hluti inn, atvinnumannakúltúr sem mér finnst hafa verið rosalega gott skref til bætingar. Þetta þarf að ganga upp fyrir leikmenn. Það er svona málið."

„Það vilja allir leikmenn æfa eins og atvinnumenn, en það er erfitt að koma svo heim og vinna til tíu um kvöldið. Svo þarftu að vakna snemma til að fara á æfingu og dagurinn er bara þannig. Þá sérðu lítið af fjölskyldunni og öðru."

Ekkert eðlilega gaman
Sveinn hefur verið varamarkvörður Vals undanfarin ár en hann sýndi það í sumar í hvað honum býr þegar hann fékk langþráð tækifæri í markinu hjá Hlíðarendafélaginu.

„Það var ótrúlega skemmtilegt og eitthvað sem ég hef beðið eftir í mörg ár. Ég geri stór mistök í þessum mýraboltaleik gegn FH. Eftir að hafa gert þau mistök þá fór pressan einhvern veginn af manni. Það gekk rosalega vel eftir það. Mér fannst þetta ganga ótrúlega vel og það var ekkert eðlilega gaman að vera inn á vellinum að spila," segir markvörðurinn.

„Það hefur oft verið talað um að ég hafi lagt ferilinn til hliðar þar sem ég hef verið varamarkvörður. En þau sem þekkja mig vita að svo er alls ekki. Að spila er eitthvað sem ég hef alltaf stefnt á. Ég held að ég hafi sýnt það í þessum leikjum að ég hef fullt erindi til að spila í Bestu deildinni og get verið með betri markvörðum í deildinni."

Hann segir að eigin frammistaða hafi komið sjálfum sér skemmtilega á óvart.

„Þetta kom eiginlega sjálfum mér á óvart. Að vera valinn leikmaður mánaðarins og eitthvað. Ég skildi ekki neitt í þessu, án gríns. Þetta opnaði það fyrir mér að ég á bara fullt erindi í þetta."

„Þetta minnir kannski fólki á mann, að ég sé enn til. Þegar það kom í ljós að ég varð samningslaus þá hjálpaði þessi frammistaða mér upp á áhuga að gera."

Hann segir það heillandi að taka mögulega skrefið erlendis.

„Já, það er heillandi. Að fara í eitthvað í ævintýri er spennandi. Ég held að maður þroskist mikið við að búa úti og fara í eitthvað þannig. Þá þarf maður að stíga almennilega upp. Sama í hvað deild það er, þá hljómar það mjög spennandi. Þetta hljómar rosalega vel," sagði Sveinn að lokum en það verður fróðlegt að sjá hvað hann gerir næst.
Athugasemdir
banner
banner
banner