Man Utd ætlar að hreinsa til í leikmannahópnum - Vardy orðaður við Valencia
   fös 23. maí 2025 10:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Elmar Atli snýr aftur - „Vonandi sjá aðrir að þetta er ekki í lagi"
Elmar Atli Garðarsson.
Elmar Atli Garðarsson.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Vestri fagnar marki í sumar.
Vestri fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daði Berg Jónsson hefur leikið mjög vel með Vestra í sumar.
Daði Berg Jónsson hefur leikið mjög vel með Vestra í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elmar Atli er spenntur fyrir því að geta hjálpað Vestra aftur inn á vellinum.
Elmar Atli er spenntur fyrir því að geta hjálpað Vestra aftur inn á vellinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vonast til þess að aðrir dragi líka lærdóm af banninu.
Vonast til þess að aðrir dragi líka lærdóm af banninu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Ég er hrikalega spenntur. Þetta hefur verið löng bið sem hefur samt liðið mjög fljótt," segir Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra, sem er núna laus úr tveggja mánaða leikbanni. Hann gæti á morgun snúið aftur á völlinn þegar Vestri tekur á móti Stjörnunni í kvöldleik á Ísafirði.

Elmar Atli var í mars dæmdur í tveggja mánaða bann frá fótbolta eftir að hafa brotið veðmálareglur.

Hann veðjaði á leiki í keppnum sem Vestri tók þátt í; leiki í Bestu deildinni, leiki í Lengjubikarnum og leik í Mjólkubikarnum. Það er bannað samkvæmt reglum. Alls voru leikirnir 36 sem hann veðjaði á, en hann veðjaði aldrei á leiki Vestra.

„Það verður gaman að koma inn í þetta loksins," segir Elmar sem hefur fylgst með Vestra utan frá hingað til í sumar. Vestraliðið hefur spilað frábærlega og er sem stendur í þriðja sæti Bestu deildarinnar, þremur stigum frá toppsætinu.

„Það er aðeins öðruvísi að geta bara verið að æfa og ekki spila. Maður mun örugglega finna fyrir því í fyrstu leikjunum varðandi leikformið. Þetta er samt búið að vera töluvert auðveldara en ég hélt og þar spilar örugglega inn í gott gengi hjá liðinu. Þá er maður ekki með mígandi samviskubit að vera ekki að spila - sem hefði verið ef það hefði gengið illa," segir Elmar.

Hann segir að það hafi verið mjög gaman að sjá liðinu ganga svona vel, en Vestri hefur aðeins fengið á sig þrjú mörk í Bestu deildinni í sumar.

„Ég er meira en bara leikmaður, ég er einn helsti stuðningsmaður Vestra. Þetta hefur verið geggjað. En að sama skapi erfitt að vera alltaf upp í stúku að horfa. Það er alveg erfitt að venjast því, en eins og ég segi þá hefur það gert það auðveldara hvað liðinu hefur gengið vel."

Erum að njóta þess að verjast
Varstu að búast við því fyrir tímabilið að það myndi ganga svona vel hjá liðinu?

„Frá því í vor þá höfðum við allir bilandi trú á okkur og liðinu," segir Elmar. „Fyrir okkur kemur þetta ekki mikið á óvart. En kannski að vera á toppnum, jú."

„Við áttum alveg von á því að byrja betur en í fyrra. Að vera við toppsætin eftir svona margar umferðir, það er kannski erfitt að segja að maður hafi séð það fyrir en maður hafði alltaf góða tilfinningu fyrir öflugri byrjun."

Davíð Smári, þjálfari Vestra, leggur mikla áherslu á góðan varnarleik og liðið er vel skipulagt.

„Hann gerir það. Ég held að það sé samt fyrst og fremst að fá okkur til að fíla það að verjast. Það er mjög mikið hugarfarstengt að nenna að verjast og hafa gaman að því. Það geta flestir fótboltamenn verið góðir varnarmenn, en þetta er mikið spurning um að nenna þessu og vilja þetta. Við erum að njóta þess að verjast og okkur líður ekki illa þó við séum ekki með boltann. Það er bara geggjað," segir Elmar, sem er varnarmaður sjálfur.

Unun að sjá 'Súðvíkinginn' blómsra
Ein af stjörnum Vestraliðsins í sumar er Daði Berg Jónsson, 18 ára gamall miðjumaður sem kom til félagsins fyrir tímabil á láni frá Víkingum.

„Hann kom til okkar í fyrra og æfði með okkur í viku. Maður sá þá að það væri helling í honum, en ég átti ekki von á því að hann myndi koma með svona mikið 'impact' inn í liðið. Það er unun að sjá hann blómstra," segir Elmar.

Daði Berg er ættaður frá Súðavík og hefur komið sér vel fyrir þar. Súðvíkingurinn Elmar Atli hefur tekið vel á móti honum í bænum.

„Það var eitthvað grafið upp að hann væri Súðvíkingur þegar hann var að skrifa undir. Það er eitthvað hægt að rekja það aftur í ættir. Hann býr allavega þar núna og líður mjög vel. Við getum alveg kallað hann Súðvíking," sagði Elmar og hló.

„Við tókum honum opnum örmum. Það góða fólk sem býr þar."

Vonar að aðrir horfi á þetta
Elmar hefur dregið lærdóm af banninu og vonast til þess að það virki sem forvörn fyrir aðra.

„Fyrstu dagarnir voru frekar þungir en samt mikill léttir að vera búinn að fá út úr þessu. Ég er búinn að reyna að nýta þennan extra frítíma með fjölskyldunni, æfa vel og gera það besta úr þessu," segir Elmar.

„Ég hef lært mikið af þessu. Ég kem til með að láta þetta í friði á meðan ég er í fótbolta. Það er vonandi að aðrir sjái að þetta er ekki í lagi. Maður er kannski mest að horfa í það að aðrir læri líka af þessu."

„Það hefðu aðrir örugglega getað lent í þessu líka. Eftir á er fínt að vera búinn að þessu, en það er vonandi að aðrir horfi á þetta líka," sagði Elmar sem er mjög spenntur fyrir því að geta hjálpað Vestra, félaginu sínu, frá og með morgundeginum í þeirri skemmtilegu baráttu sem er framundan.
Athugasemdir
banner