Áhrif Carlos Tevez á regluverk í tengslum við eignarhald þriðju aðila
Eignarhald þriðja aðila á knattspyrnumönnum hefur lengi verið umdeilt og dularfullt efni. En hvernig virkar slíkt fyrirkomulag? Af hverju er þetta fyrirkomulag umdeilt? Og loks er þessi skipan lögleg samkvæmt gildandi reglum FIFA? Markmið þessar greinar er að svara framangreindum spurningum á stuttan og hnitmiðaðan hátt.
Árið er 2022 og ónefndur fjárfestir fer á fund forsvarsmanna HK í Kórnum í því skyni að gera samning við félagið um kaup á eignarhlut í knattspyrnumanninum Ásgeiri Marteinssyni. Fjárfestirinn vonast eftir því að geta keypt 50% hlut í leikmanninum fyrir ákveðna fjárhæð. Fjárhæðina fær HK greidda við undirritun samningsins og getur félagið í kjölfarið nýtt peningana til að greiða skuldir sínar eða til að styrkja leikmannahóp sinn fyrir átökin í Lengjudeildinni. Í huga fjárfestisins þá er þetta fjárfesting sem hann gæti notið ríkulegrar ávöxtunar af, þ.e.a.s. ef leikmaðurinn spilar vel og er síðar seldur til annars félags, enda á fjárfestirinn þá rétt á 50% af framtíðarsöluverði hans í samræmi við eignarhlut sinn. Öðru máli gegnir hvort þetta sé raunverulega góð fjárfestingarákvörðun af hans hálfu, þ.e. að kaupa hlut í 28 ára gömlum leikmanni sem leikur í B-deild á Íslandi og hefur mátt muna fífil sinn fegurri.
Þessi frásögn er einfalt dæmi um eignarhald þriðja aðila í knattspyrnumanni (e. third party ownership) („TPO“). Þriðji aðili er skilgreindur sem „annar aðili en knattspyrnufélögin tvö sem flytja leikmann á milli sín, eða nokkurt annað félag sem leikmaður hefur einhvern tímann verið skráður hjá." Til eru fjölmargar mismunandi útfærslur af TPO samningum milli félaga og þriðju aðila, en í grunninn ganga slíkir samningar út á að fyrirtæki eða einstaklingur greiðir félagi fjármuni gegn því að eignast hlut í framtíðarverðmæti tiltekins leikmanns. Á mannamáli þýðir þetta að félagið sem leikmaðurinn leikur fyrir, á ekki 100% hlut í honum. Þessi verðmæti eru alla jafnt þekkt sem efnahagsleg réttindi leikmanns (e. player‘s economic rights). Þriðji aðilinn á því rétt á njóta efnahagslegs ávinnings af framtíðarfélagaskiptum leikmannsins. Slíkur réttur stafar af einkaréttarlegum samningi milli félags og fjárfestis, og er oftast gerður í þeim tilgangi að (a) fjármagna rekstur félags, (b) til að dreifa kostnaði við kaup á nýjum leikmanni eða (c) til að gera nýjan og betri samning við leikmann í því skyni að halda honum innan raða félags. Að einhverju leyti má segja að fjárfestir sé á þennan hátt að eignast hlutabréf í leikmanni líkt og tíðkast þegar fjárfest er í hlutafélagi.
Í gegnum tíðina hafa TPO samningar hjálpað mörgum smærri félögum í heimsfótboltanum til að ná árangri. Nærtækt dæmi er FC Porto, en TPO samningar eru taldir hafa átt lykilþátt í velgengni félagsins. Á árum áður stundaði portúgalska félagið það grimmt að kaupa hæfileikaríka leikmenn frá Suður-Ameríku með aðstoð ýmissa fjárfesta sem lögðu til fjármuni til leikmannakaupanna. Þessi „töfraformúla“ að kaupa ódýrt og selja svo dýrt gekk út á það að Porto greiddi aðeins lítinn hluta af kaupverði hins nýja leikmanns, en fjárfestirinn greiddi meirihlutann. Með þessu móti var fjárhagslegri áhættu Porto af félagaskiptunum haldið í algjöru lágmarki. Þó ber að hafa í huga að TPO samningarnir voru alla jafna þannig uppbyggðir að þeir heimiluðu Porto að auka við eignarhlut sinn í leikmanninum með fyrirfram ákveðinni fjárhæð í framtíðinni.
Til skýringar er hægt að taka tilbúið dæmi um argentínskan leikmann sem Porto kaupir frá River Plate. Kaupverðið er 5.000.000 evra, en Porto greiðir einungis 1.000.000 evra á meðan fjárfestirinn greiðir 4.000.000 evra.
Eignarhlutur í leikmanninum eftir kaupin
Porto: 20% (1.000.000 evra af kaupverðinu)
Fjárfestir: 80% (4.000.000 evra af kaupverðinu)
Porto er þó skynsamlegt félag sem hefur samið við fjárfestinn um að því sé heimilt ári síðar að greiða honum fyrirfram ákveðna fjárhæð, t.d. 1.200.000 evra og hækka þannig eignarhlut sinn upp í 40%. Með þessu móti er Porto að greiða fjárfestinum 1.000.000 evra auk 200.000 evra fyrir auklegan 20% hlut í leikmanninum. Við þetta lækkar eignarhlutur fjárfestisins niður í 60%. Þetta samkomulag gerir Porto kleift að auka við eignarhlut sinn þegar virði leikmannsins hefur hugsanlega aukist vegna góðrar frammistöðu hans í portúgölsku deildinni.
Eignarhlutur í leikmanninum eftir eitt ár hjá Porto
Porto: 40%
Fjárfestir 60%
Loks er leikmaðurinn seldur frá Porto til Atletico Madrid fyrir 20.000.000 evra, þ.e. fyrir fjórum sinnum hærri fjárhæð en nemur upprunalegu kaupverði hans.
Félagaskiptagjaldið skiptist á eftirfarandi hátt
Porto: 8.000.000 evrur (40% af 20.000.000 evrum)
Fjárfestir: 12.000.000 evrur (60% af 20.000.000 evrum)
Halda skal því til haga að þetta er talsverð einföldun á félagaskiptum leikmanns í eigu þriðja aðila. Það þurfti sannarlega að greiða leikmanninum laun á árunum tveimur sem hann lék hjá Porto. Þegar hagnaður félagsins er reiknaður út, verður því að taka mið af upprunalegu kaupverði sem og launagreiðslum til leikmannsins. Eftir sem áður hafa bæði Porto og fjárfestirinn notið ríkulegrar ávöxtun á fjárfestingu sinni. Þessi áhætta að greiða 5.000.000 evrur fyrir lítt reyndan ungan leikmann frá Argentínu gekk því upp og gott betur en það.
Í dag eru sambærilegar fjárfestingar þriðju aðila ekki lengur leyfðar samkvæmt reglum FIFA. Þess vegna er áhugavert að velta upp ástæðum þess að áhugasömum fjárfesti er ekki heimilt að eignast hlut í Ásgeiri Marteinssyni og hvort skipt eignarhald á leikmanni hafi raunverulega verið vandamál sem nauðsynlegt hafi verið að banna alfarið.
Félagaskipti Tevez og Mascherano til West Ham
Í Suður-Ameríku höfðu TPO samningar lengi tíðkast áður en skýrara ljósi var varpað á þá innan knattspyrnuheimsins í kjölfar félagaskipta Carlos Tevez og Javier Mascherano til West Ham United frá Corinthians á síðasta degi félagaskiptagluggans leiktímabilið 2006/2007. Það sem gerði félagaskipti leikmannanna sérstaklega áhugaverð var sú staðreynd að efnahagsleg réttindi þeirra voru í eigu fjölda aðila. Réttindin yfir Tevez voru í eigu Media Sports Investments („MSI“) og Just Sports Inc („JSI“), en réttindin yfir Mascherano voru í sameiginlegri eigu Global Soccer Agencies og Mystere Services Ltd. Á þessum tíma var engum reglum til að dreifa sem beinlínis bönnuð eignarhald þriðju aðila í leikmönnum, en þrátt fyrir það kom West Ham sér í mikil vandræði með félagaskiptunum. Raunverulega var Lundúnafélagið einungis með leikmennina „á láni“ frá framangreindum fyrirtækjum, án þess að hafa nokkur réttindi yfir þeim, önnur en að spila þeim í keppnisleikjum á vegum félagsins.
Þegar West Ham tilkynnti félagaskiptin til ensku úrvalsdeildarinnar kvaðst það vera raunverulegur eigandi leikmannana, en minntist hvergi á þetta sérkennilega fyrirkomulag varðandi eignarhald þeirra. Þó grunaði ensku úrvalsdeildina að ekki væri allt með felldu og hóf því að rannsaka félagaskiptin. Þegar einungis þrjár umferðir voru eftir af leiktímabilinu komst deildin að þeirri niðurstöðu að West Ham hefði brotið reglur deildarinnar sem bönnuðu þriðju aðilum að hafa efnahagsleg áhrif á ákvarðanatöku félaga.
Í samningnum um Tevez kom t.a.m. fram að þriðju aðilarnir (MSI og JSI) hefðu fullt vald til að stýra framtíðarfélagaskiptum leikmannsins og ákveða þá fjárhæð sem yrði greidd fyrir hann. Greiðslan myndi síðan einungis renna til fyrirtækjanna. Í ljósi þessa brots á reglum deildarinnar var félagið sektað um 5,5 milljónir punda. Á þessum tímapunkti var West Ham í bullandi fallbaráttu og átti Carlos Tevez eftir að leika lykilhlutverk í því að bjarga félaginu frá falli. Ákvörðun deildarinnar féll í fremur grýttan jarðveg, enda voru margir þeirrar skoðunar að refsa ætti félaginu með stigafrádrætti. Með vísan til játningar West Ham og vegna þess að skammt var eftir af leiktímabilinu taldi enska úrvaldsdeildin þó fullnægjandi að láta sektarfjárhæð duga. Að lokum tókst West Ham að bjarga sér frá falli á kostnað Sheffield United sem féll niður í B-deildina. Í kjölfarið hóf Sheffield United málaferli gagnvart Lundúnafélaginu. Sheffield United taldi að refsing West Ham hefði verið ófullnægjandi og að beita hefði átt stigafrádrætti sökum alvarleika brotsins. Að endingu lauk málaferlinu með sátt, en West Ham er talið hafa greitt Sheffield United um 15-18 milljónir punda í skaðabætur.
Eignarhald þriðju aðila er bannað
Í því skyni að koma í veg fyrir að sambærileg mál endurtækju sig ákváðu enska knattspyrnusambandið og enska úrvalsdeildin að endurskoða reglur sínar. Í stuttu máli var ákveðið að einungis knattspyrnufélögum væri heimilt að eiga hlut í leikmönnum sínum. Á Englandi snérust áhyggjurnar um eignarhald þriðju aðila einna helst um heillindi íþróttarinnar, þróun ungra leikmanna og hættuna á að fjármunir kynnu að renna frá knattspyrnunni og í vasa fjárfesta er leikmenn væru seldir á milli félaga.
Í kjölfar málsins hóf FIFA einnig nánari skoðun á TPO samningum í knattspyrnuheiminum. Komst hið alþjóðlega samband að þeirri niðurstöðu að TPO samningar hefðu það í för með sér að félög festust í vítahring skulda og ósjálfstæðis ásamt því að heillindi leikmanna og knattspyrnunnar væri stefnt í hættu. Á næstu árum gerði FIFA því ýmsar breytingar á regluverki sínu til þess að milda áhyggjur sínar. Að endingu var það þó ekki í fyrra en í maímánuði árið 2015 sem algjöru banni var komið á. Síðan þá hefur nokkrum félögum verið harðlega refsað fyrir viðlíka fyrirkomulag á eignarhaldi leikmanna sinna. Belgíska félagið Seraing United fékk t.d. 2 ára félagaskiptabann og 120.000 evra sekt fyrir að þiggja 300.000 evrur frá Doyen Sports Group í skiptum fyrir 30% hlut í leikmanni félagsins. Að sama skapi var hollenska félaginu FC Twente refsað með tímabundnu banni við þátttöku í Evrópukeppnum og sekt upp á 185.000 svissneska franka fyrir sambærilegt brot.
Er algjört bann nauðsynlegt?
Eftir stendur þó sú spurning hvort nauðsynlegt hafi verið að fara þá leið að banna algjörlega eignarhald þriðju aðila í stað þess að afmarka tiltekin ramma í kringum slíkar fjárfestingar. Margir hafa bent á að aukið eftirlit, svo sem með gegnsæi og kröfu um upplýsingaskyldu, sé betri valkostur en bann. Áður en bannið var samþykkt var áhugaverð tillaga sett fram sem snýst um það að þriðji aðili megi að hámarki eiga 30% hlut í leikmanni og að TPO samningar á milli félaga og þriðju aðila um nákvæma skiptingu á eignarhlutum þurfi að birta opinberlega.
Í ljósi fjárhagserfiðleika margra félaga um allan heim, ásamt auknu bili á milli smærri og stærri félaga, má sannarlega efast um réttmæti þess að algjört bann ríki. Mörg félög þurfa sífellt að leita nýrra leiða til að fá utanaðkomandi fjármögnun inn í rekstur sinn. TPO samningar geta gert félögum kleift að fjármagna starfsemi sína ásamt því að efla og/eða viðhalda samkeppnishæfni þeirra gagnvart stærri félögum. Á móti kemur getur þetta blandaða eignarhald ýtt undir hagsmunaárekstra milli fjárfesta, eigenda félaga, umboðsmanna og þjálfara. Það gæti skaðað ímynd knattspyrnunnar.
Hvað sem því líður verður að telja að gildar ástæður séu fyrir því að núverandi regluverk um eignarhald þriðju aðila verði að einhverju leyti endurskoðað. Í náinni framtíð geta áhugasamir fjárfestar mögulega opnað veskið og fjárfest í leikmönnum á borð við Ásgeir Marteinsson sóknarmanni HK.
Höfundur er lögfræðingur hjá LOGOS lögmannsþjónustu
Athugasemdir