Samantha Rose Smith hefur átt magnað sumar í fótboltanum á Íslandi og það er erfitt að sjá að einhver muni leika það eftir sem hún hefur gert.
Fyrir stuttu var Samantha valin leikmaður ársins í Lengjudeild kvenna en hún var besti leikmaður FHL sem gjörsigraði deildina.
Fyrir stuttu var Samantha valin leikmaður ársins í Lengjudeild kvenna en hún var besti leikmaður FHL sem gjörsigraði deildina.
Eftir að hafa spilað frábærlega fyrri hluta sumars með FHL, þá var hún lánuð í Breiðablik. FHL var búið að tryggja sig upp og Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, náði að krækja í hana á láni út leiktíðina.
Mögulega verða þessi skipti til þess að Breiðablik verði Íslandsmeistari.
„Ég hef líklega ekki verið með leikmann sem hefur komið betur inn um mitt sumar. Ég hef unnið með frábærum leikmönnum. Samantha hefur komið frábærlega inn og passað fullkomlega við liðið," sagði Nik við Fótbolta.net í gær.
Samantha skoraði þrjú mörk og lagði upp eitt þegar Breiðablik vann stórkostlegan 6-1 sigur gegn Þór/KA í gær.
„Ég var mjög stressuð að koma inn í liðið, þar sem þetta er efsta deildin á Íslandi. Ég vissi ekki hvort ég gæti komið inn í liðið og skipt máli eða spilað eins vel og ég gerði í (Lengjudeildinni). Þetta hafa samt verið auðveldar breytingar þar sem þessar stelpur eru svo góðar. Þær koma mér í færi og ég kem þeim í færi þannig það hefur verið gaman að spila með þeim," sagði Samantha sjálf eftir leikinn í gær.
Frá því hún kom til Breiðabliks, þá hefur hún verið besti leikmaður Bestu deildarinnar en hún er búin að gera sjö mörk í fimm leikjum og lagt upp þónokkur ofan á það. Það eru tveir leikir eftir og alls ekki er útilokað að hún verði í liði ársins í Bestu deildinni og Lengjudeildinni sama sumarið. Hver veit nema hún verði leikmaður ársins í báðum deildum ef hún heldur áfram og hjálpar Breiðabliki að landa Íslandsmeistaratitlinum? Það er allavega hreint út sagt ótrúlegt að hún hafi verið að spila í Lengjudeildinni fyrri hluta sumars, hún var alltof, alltof góð fyrir það.
Athugasemdir