Enski þjálfarinn Will Still er búinn að skrifa undir þriggja ára samning við enska félagið Southampton. Þetta kemur fram á Sky Sports í dag.
Will Still hætti með Lens á dögunum og var greint frá því að hann væri að snúa aftur heim til Englands vegna persónulegra ástæðna.
Englendingurinn náði frábærum árangri í Frakklandi. Hann tók við Reims árið 2022 og tókst að fara í gegnum sautján deildarleiki án þess að tapa sem var nýtt met í frönsku deildinni.
Síðasta sumar tók hann við Lens og stýrði þeim í 8. sæti ásamt því að koma þeim í umspil í úrslitakeppni Sambandsdeildar Evrópu.
Sky Sports segir hann vera að taka við Southampton á Englandi og er samningurinn til þriggja ára.
Hann verður í stúkunni á morgun er Southampton mætir Arsenal í síðasta deildarleik tímabilsins.
Southampton átti hörmulegt tímabil í úrvalsdeildinni og er fallið með einn versta árangur í sögu deildarinnar.
Athugasemdir