Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
   sun 15. júní 2025 16:17
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Fram með endurkomusigur gegn Val - Fimmtán mínútna martröð í botnslag
Kvenaboltinn
Murielle Tiernan skoraði sigurmark Fram í endurkomunni gegn Val
Murielle Tiernan skoraði sigurmark Fram í endurkomunni gegn Val
Mynd: Toggi Pop
Það gengur ekkert hjá Val
Það gengur ekkert hjá Val
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyja Stefáns átti stórleik í liði Víkings
Freyja Stefáns átti stórleik í liði Víkings
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nýliðar Fram unnu frábæran 2-1 endurkomusigur á Val í 9. umferð Bestu deildar kvenna á Hlíðarenda í dag. Bikarmeistararnir eru án sigurs síðan í lok apríl. Víkingar unnu á meðan 4-0 stórsigur á FHL þar sem öll mörkin voru skoruð á fimmtán mínútna kafla í síðari hálfleik.

Valskonur byrjuðu mun betur og fóru með sanngjarna 1-0 forystu inn í hálfleikinn.

Jordyn Rhodes skoraði markið á 39. mínútu með skoti sem fóru af Telmu Steindórsdóttur og í netið.

Stuttu eftir markið gat Fanndís Friðriksdóttir tvöfaldað forystuna er hún mætti fyrirgjöf Bryndísar Eiríksdóttir en stýrði boltanum í stöng og þurfti Valur að sætta sig við eins marks forystu í hálfleik.

Í þeim síðari náðu Framarar að snúa taflinu við. Una Rós Unnarsdóttir jafnaði metin með skoti úr þröngu færi á 53. mínútu og tíu mínútum síðar átti Sara Svanhildur Jóhannsdóttir skot í þverslá.

Framarar héldu áfram að sækja og kom sigurmarkið nokkrum mínútum seinna er Murielle Tiernan keyrði upp völlinn með þrjár Valskonur í sér og skoraði með góðu skoti. Sjöunda mark hennar í deildinni og er hún nú næst markahæst.

Dominiqe Evangeline Bond-Flasza fékk algert dauðafæri til að tvöfalda forystuna er Tinna Brá Magnúsdóttir átti slaka sendingu frá marki, en Dominique setti boltann í stöng.

Valskonur náðu ekki að svara og lokatölur 2-1 Fram í vil. Framarar eru áfram í 5. sæti og nú með 15 stig, en Valur í sætinu fyrir neðan með 9 stig og án sigurs í síðustu sex deildarleikjum sínum.

Víkingar kláruðu FHL í seinni hálfleik

Víkingur vann langþráðan 4-0 stórsigur á FHL í botnslag í Fjarðabyggðarhöllinni.

Víkingar höfðu ekki unnið leik síðan í annarri umferðinni og var vonin sú að ná að skapa smá meðbyr með því að taka sigur fyrir austan.

Það var líf og fjör í fyrri hálfleiknum en engin mörk. Víkingar sóttu án afláts í byrjun leiks en FHL náði að koma aðeins meira jafnvægi eftir rúmar tíu mínútur.

Freyja Stefánsdóttir var hættuleg í sóknarleik Víkinga á meðan Calliste Brookshire var kraftmikil hjá heimakonum.

Staðan engu að síður markalaus í hálfleik en í þeim síðari kom fimmtán mínútna kafli sem FHL-liðið vill líklega gleyma sem allra fyrst.

Bergdís Sveinsdóttir, fyrirliði Víkings, skoraði á 66. mínútu. Freyja fékk boltann vinstra megin, kom honum inn á Bergdísi sem skoraði af stuttu færi og rúmri mínútu síðar bætti Linda Líf Boama við öðru eftir undirbúning Freyju.

Dagný Rún Pétursdóttir skoraði þriðja markið eftir klaufagang í vörn FHL. Freyja náði til boltans og átti sendingu á Lindu en Keelan Terrell sá við henni. Dagný mætti í frákastið og eftirleikurinn auðveldur.

Fjórða og síðasta mark leiksins kom síðan á 80 mínútu. Bergdís átti sendingu sem fór af Hrafnhildi Eik Reimarsdóttur og í eigið net. Fimmtán mínútna martröð hjá heimakonum.

Hrikalega slæmur kafli og unnu Víkingar þægilegan sigur sem fleytir þeim í 7. sæti með 7 stig en FHL áfram án stiga á botninum.

Úrslit og markaskorarar:

Valur 1 - 2 Fram
1-0 Jordyn Rhodes ('39 )
1-1 Una Rós Unnarsdóttir ('54 )
1-2 Murielle Tiernan ('65 )
Lestu um leikinn

FHL 0 - 4 Víkingur R.
0-1 Bergdís Sveinsdóttir ('66 )
0-2 Linda Líf Boama ('68 )
0-3 Dagný Rún Pétursdóttir ('72 )
1-3 Hrafnhildur Eik Reimarsdóttir ('80 , sjálfsmark)
Lestu um leikinn
Besta-deild kvenna
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 10 8 1 1 40 - 7 +33 25
2.    Þróttur R. 10 8 1 1 23 - 8 +15 25
3.    FH 10 7 1 2 23 - 11 +12 22
4.    Þór/KA 10 6 0 4 19 - 16 +3 18
5.    Fram 10 5 0 5 14 - 21 -7 15
6.    Valur 10 3 3 4 12 - 14 -2 12
7.    Stjarnan 10 4 0 6 11 - 22 -11 12
8.    Tindastóll 10 3 1 6 15 - 20 -5 10
9.    Víkingur R. 10 2 1 7 16 - 26 -10 7
10.    FHL 10 0 0 10 4 - 32 -28 0
Athugasemdir
banner