Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   mið 24. júlí 2024 17:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Samsungvellinum
Jökull: Öflugur og skemmtilegur leikmaður sem gaman verður að sjá gegn okkur
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar.
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan mætir Paide frá Eistlandi á morgun. Um er að ræða fyrri leik liðanna.
Stjarnan mætir Paide frá Eistlandi á morgun. Um er að ræða fyrri leik liðanna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ungir leikmenn Stjörnunnar eru að fá dýrmæta reynslu.
Ungir leikmenn Stjörnunnar eru að fá dýrmæta reynslu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökull segist hafa lært margt sjálfur á sínu fyrsta Evrópueinvígi sem þjálfari.
Jökull segist hafa lært margt sjálfur á sínu fyrsta Evrópueinvígi sem þjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þessi leikur leggst mjög vel í okkur," sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, á fréttamannafundi fyrir leikinn gegn Paide Linnameeskond frá Eistlandi í forkeppni Sambandsdeildarinnar á morgun.

„Við erum mjög vel undirbúnir eins og við vorum síðast. Eftir síðasta einvígi leyfum við okkur að gera miklar kröfur til okkur á heimavelli og á heimavöllinn okkar. Við erum vel undirbúnir og spenntir."

Jökull segir standið á leikmannahópnum fyrir heimaleikinn á morgun vera gott.

„Standið á leikmannahópnum er bara gott, það er betra en síðast. Menn eru að skríða til baka. Einhverjir orðnir heilir og stytta í aðra. Jóhann Árni er til dæmis bara orðinn heill og það er stutt í Andra Adolphsson. Standið er bara mjög gott og ég held að við séum bara nokkuð ferskir. Við spiluðum gegn Fylki þegar það var stutt frá Evrópuleik en ég held að við séum orðnir góðir fyrir þennan leik. Ég á von á því að menn nái að draga fram það allra besta á morgun," sagði Jökull og bætti við:

„Guðmundur Baldvin er áfram frá og svo er það í rauninni bara Andri Adolphs. Aðrir geta spilað."

Treysti mér ekki að segja það nákvæmlega
Paide er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar í Eistlandi en Jökull telur Stjörnuna renna nokkuð blint í sjóinn með það hversu sterkir þeir nákvæmlega eru. Stjarnan ætlar að undirbúa sig fyrir það að spila leikinn á sínu tempói.

„Þeir vilja halda í boltann, eru mikið possession lið. Úti í Wales í seinni leiknum þeirra í síðasta einvígi voru þeir held ég með 70 og eitthvað prósent með boltann. Þeir eru góðir í fótbolta og flest lið beita skyndisóknum gegn þeim. Þeir eru aðeins viðkvæmari þar," segir Jökull.

„Við viljum spila okkar leik og sérstaklega á heimavelli, og þrýsta þeim þá í að verjast aðeins lengur en þeir eru vanir. Við þurfum að eiga toppdag. Það er erfitt að átta sig fullkomlega á því hversu sterkir þeir eru. Leikirnir sem við sjáum eru gegn þessu velska liði og svo í deildinni. Ég treysti mér ekki til að segja nákvæmlega hversu öflugir þeir eru."

Í liði Paide eru margir öflugir leikmenn sem Stjörnumenn þurfa að passa sig á.

„Það hefur verið þróun á þessu liði. Þeir eru með serbneskan þjálfara sem er á öðru ári. Þeir hafa þróast mikið frá síðasta tímabili og það þýðir ekkert að skoða Evrópuleikina þeirra frá því í fyrra."

„Þeir sóttu serbneskan hafsent sem er mjög vel spilandi og bara öflugur. Það er hann sem stígur upp á miðjuna hjá þeim. Það er bara fótboltamaður; viljugur að fá hann og snúa fram á við. Þeir eru líka með einn 16 ára (Patrik Kristal), mjög öflugan, sem fer til Köln í Þýskalandi eftir tímabilið. Það er mjög öflugur og skemmtilegur leikmaður sem verður gaman að sjá á móti okkur. Svo reiknum við með því að þeir verði með sinn fljóta framherja upp á topp. Þeir eru með eistneska landsliðsmenn og suma sem eiga marga landsleiki. Þeir eru með mann sem geta sært þig, þeir eru hreyfanlegir og öflugir með boltann."

Dýrmæt reynsla
Jökull segir það áhugavert að máta sig við þetta eistneska lið.

„Þetta er áhugavert lið og það verður gaman að sjá lið sem er viljugt til að halda í boltann. Við horfum ekki á eistneska boltann sem mjög hátt 'level' en það verður gaman að sjá hvernig þeir 'matcha' á móti okkur."

Í liði Stjörnunnar eru margir ungir leikmenn sem eru að fá dýrmæta reynslu í Evrópukeppni.

„Ég held að margir í hópnum hafi lært af þessu og ég lærði helling af þessu. Við getum við horft á fyrri leikinn gegn Linfield þar sem við vorum með 18 ára í djúpum á miðju og tvo 19 ára fyrir framan. Þeir eru allir í 2. flokki inn á miðsvæðinu hjá okkur. Það var frábær leikur og þeir stóðu sig ótrúlega vel. Það voru svo fleiri sem komu inn úti. Mér fannst við ekki hafa fundið mikið fyrir því að ungu leikmennirnir séu það óreyndir að þeir séu ekki klárir. Það gekk ekki alveg upp það sem við lögðum upp með úti en stór hluti af því er bara á mér og okkur í þjálfarateyminu."

„Þetta er ótrúlega dýrmætt fyrir þessa ungu leikmenn og líka að hafa eldri leikmennina til að styðja sig," sagði Jökull.
Athugasemdir
banner