Sancho, Van de Beek, Greenwood, Soule, Todibo, Müller og fleiri góðir koma við sögu í slúðri dagsins
banner
   sun 24. september 2023 19:28
Ívan Guðjón Baldursson
Annað tap hjá Hacken - Gulli og Alfreð réðu ekki við Gent
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark
Mynd: Eupen

Síðustu Íslendingaleikjum dagsins er lokið þar sem fjórir Íslendingar komu við sögu í fjórum leikjum.


Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn í sigri Kalmar gegn BK Häcken í efstu deild sænska boltans en Valgeir Lunddal Friðriksson var ónotaður varamaður í liði Hacken.

Þetta eru gríðarlega svekkjandi úrslit fyrir Hacken sem er að dragast afturúr í titilbaráttunni eftir þrjú töp í síðustu fjórum deildarleikjum. Kalmar er ellefu stigum frá Evrópusæti þegar aðeins sex umferðir eru eftir af tímabilinu.

Hammarby er tveimur stigum fyrir ofan Kalmar eftir sigur gegn botnliði Varberg. Oskar Tor Sverrisson lék allan leikinn og var meðal bestu leikmanna vallarins í tapi Varberg, en Jón Guðni Fjóluson var fjarverandi úr leikmannahópi Hammarby vegna meiðsla.

Í efstu deild belgíska boltans tapaði Íslendingalið Eupen þriðja leiknum í röð þegar liðið heimsótti Gent. Guðlaugur Victor Pálsson og Alfreð Finnbogason léku allan leikinn í liði Eupen sem tók forystuna  í fyrri hálfleik.

Eupen var sterkari aðilinn fyrir leikhlé og var útlitið bjart fyrir síðari hálfleikinn eftir að Gift Orban fékk að líta beint rautt spjald í liði heimamanna. Gent virtist þó eingöngu styrkjast við að missa leikmann af velli og var talsvert sterkari aðilinn þrátt fyrir að vera manni færri allan síðari hálfleikinn.

Gent vann að lokum 2-1 til að endurheimta toppsæti deildarinnar, en Eupen er komið með tíu stig eftir átta fyrstu umferðirnar.

Sverrir Ingi Ingason var að lokum ónotaður varamaður í 2-1 sigri Midtjylland gegn Odense í danska boltanum. Midtjylland verðskuldaði sigurinn og er með 14 stig eftir 9 umferðir.

Kalmar 1 - 0 Hacken

Varberg 0 - 1 Hammarby

Gent 2 - 1 Eupen

Midtjylland 2 - 1 OB


Athugasemdir
banner
banner