Markvörðurinn Ásgeir Orri Magnússon hefur skrifað undir nýjan fimm ára samning við Keflavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Ásgeir Orri, sem er tvítugur, átti frábært tímabil með Keflvíkingum í sumar.
Hann fékk aðeins á sig 24 mörk í Lengjudeildinni, fæst allra markvarða í deildinni ef miðað er við 22-leikja deild, og hjálpaði liðinu að komast alla leið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.
Keflavík hafnaði í öðru sæti deildarinnar og komst í umspil, en tapaði í úrslitum fyrir Aftureldingu.
Eftir tímabilið var hann valinn besti leikmaður Keflvíkinga á lokahófi félagsins.
Ásgeir hefur nú gert langtímasamning við Keflavík sem gildir til loka árs 2029.
Athugasemdir