Búast við því að Van Dijk geri nýjan samning - Arsenal vill Cunha - Akliouche meðal leikmanna á blaði City
   sun 25. september 2022 10:25
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Förum bara samt á EM
Elvar Geir Magnússon
Kristian Nökkvi Hlynsson kemur úr leikbanni.
Kristian Nökkvi Hlynsson kemur úr leikbanni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sú ákvörðun að láta ekki einhverja af þeim sjö leikmönnum í A-landsliðshópnum sem eru á U21 aldri minnka augljóslega möguleika Íslands á að komast í lokakeppni EM. En útilokar þá hinsvegar alls ekki.

U21 liðið er með fullt af hæfileikaríkum mönnum sem hafa sýnt gæði sín í undankeppninni, liðið er vel skipulagt og getur spilað frábæran fótbolta. Í allri umræðunni er þetta punktur sem má ekki gleymast, eins og Kristall Máni Ingason bendir á.

Það hafa orðið skakkaföll, tveir úr sóknarlínunni í fyrri leiknum hafa helst úr lestinni og Kristall er á meiðslalistanum. En eins og Kristall segir sjálfur á Twitter þá eru góðir leikmenn til staðar.

Kristian Nökkvi Hlynsson, einn allra hæfileikaríkasti ungi leikmaður Íslands, snýr aftur eftir leikbann. Hans var sárt saknað í fyrri leiknum og er leikmaður sem getur skipt sköpum. Einhverra hluta vegna voru margir leikmenn talsvert frá sínu besta á föstudag og ljóst að þeir þurfa að stíga upp og finna taktinn til að markmiðið náist.

Lið Tékklands er hörkuöflugt en einvígið er enn galopið, þrátt fyrir að sjö leikmenn sem gætu spilað með U21 landsliðinu séu í A-landsliðshópnum. Það segir sitt um breiddina sem við eigum í ungum og efnilegum leikmönnum. Breiddin er reyndar alls ekki til staðar varnarlega og áhyggjuefni hvað við framleiðum skyndilega fáa miðverði. En það er umræða sem hægt er að taka síðar.

Það vita það allir hvað það gerði fyrir íslenskan fótbolta þegar við komumst í lokakeppni EM U21 landsliða 2011 og umdeilt þegar U21 liðið var látið ganga fyrir. Nú á að fara aðra leið. Tíminn mun mögulega leiða í ljós hvað er rétt og hvað ekki.

Á þriðjudagskvöld verður U21 landsliðið vonandi búið að tryggja sér EM sæti og A-landsliðið vinnur vonandi leikinn í Albaníu. Annars held ég að hitinn í umræðunni nái suðupunkti.



Athugasemdir
banner
banner
banner