Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er Arnór Sveinn Aðalsteinsson að ganga í raðir Breiðabliks eftir sex tímabil með KR. Varnarmaðurinn er uppalinn hjá Breiðabliki en skipti í KR fyrir tímabilið 2017.
Arnór lék lengstum af á sínum ferli sem hægri bakvörður en hefur síðustu tímabil spilað sem miðvörður.
Arnór lék lengstum af á sínum ferli sem hægri bakvörður en hefur síðustu tímabil spilað sem miðvörður.
Arnór er 36 ára gamall og kemur í hópinn hjá Breiðabliki þar sem miðverðirnir Mikkel Qvist og Elfar Freyr Helgason eru á förum. Mikkel verður ekki áfram og Elfar Freyr er að ganga í raðir Vals.
Hjá KR varð Arnór einu sinni Íslandsmeistari, það var sumarið 2019. Á nýliðnu tímabili lék hann fjórtán deildarleiki og tvo bikarleiki með KR.
Á ferlinum á hann að baki 240 leiki í efstu deild og fimmtán leiki í B-deild. Þá á hann að baki tólf A-landsleiki og tvö og hálft tímabil í atvinnumennsku hjá Hönefoss í Noregi.
Breiðablik varð Íslandsmeistari í ár í fyrsta sinn síðan 2010. Þá var Arnór Sveinn leikmaður liðsins.
Athugasemdir