„Ég skil þeirra ástæður. Þetta er alls ekki þannig að menn séu að velja sér verkefni," sagði Arnar Þór Viðarsson við Fótbolta.net í morgun spurður út í fjarveru lykilmanna úr íslenska landsliðshópnum.
„Ef ég sem þjálfari væri sammála öllum og segði bara 'já flott takið ykkur frí og komið bara þegar þið viljið', þá væri ég ekkert sérstakur þjálfari. Ég vil fá mína bestu menn í alla leiki en skil að það er ekki hægt," bætti hann við.
Ísland mætir Mexíkó 30. maí í Dallas í Bandaríkjunum og hefst leikurinn kl. 01:00 (eftir miðnætti) að íslenskum tíma. Strákarnir fara næst til Færeyja og mæta þar heimamönnum 4. júní á Tórsvelli og loks til Póllands þar sem þeir leika gegn Pólverjum 8. júní á Poznan Stadium.
Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason gáfu ekki kost á sér í verkefnið.
„Þeir eru allir með mismunandi ástæður fyrir því að gefa ekki kost á sér. Við vitum að Alfreð er búinn að vera mikið meiddur og aðeins komið inná í síðustu leikjum. Þeir voru í botnbaráttu og treystu á hann í nokkrar mínútur þó hann væri meiddur. Hann er bara ekki 100% og vill koam sér í stand í fríinu og ná sínu gamla formi," sagði Arnar Þór.
„Jói er búinn að vera í brasi í tvö ár, mikil meiðsli. Hann hefur verið að koma sterkur inn í ensku úrvalsdeildinni í vetur og var með okkur í mars. Hann vill fá tíma til að koma sér í sitt gamla form í fríinu sínu," hélt hann áfram.
„Gylfi var að klára með Everton og það eru persónulegar ástæður fyrir því. Þetta eru allt góðar og gildar ástæður sem ég skil vel bæði sem fyrrverandi leikmaður og sem persóna en sem þjálfari er ég ekki sammála þeim. Ég hefði viljað hafa þá en vil frekar hafa þá 100% í september."
Gylfi hefur enn ekki gefið kost á sér í landsliðið í þjálfaratíð Arnars Þórs en hann dró sig úr hóp sem mætti Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM 2022 í mars og gefur ekki kost á sér núna. Óttast Arnar Þór ekki að Gylfi sér að hætta í landsliðinu?
„Nei, ég hef engar áhyggjur af Gylfa. Ég hefði gjarnan viljað fá hann í fyrsta leikinn til að kynna hann fyrir okkar hugmyndafræði en það er þannig með svona frábæra leikmenn og sniðuga að það þarf ekki mikinn tíma með þeim áður en þeir skilja hvað ég vil."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum að neðan.
Athugasemdir