„Þetta var erfiður leikur, við kannski vorum aðeins of lin í návígjum og töpuðum of mikið af þeim til þess að geta flutt liðið eitthvað framar. Það lá svolítið á okkur því við náðum aldrei raunverulega að halda í boltann eða vera sterk á boltanum. Við mættum góðu lið og þær voru ógeðslega góðar í dag og bara börðu okkur út.“ Sagði Þorsteinn Halldórsson kallaður Steini þjálfari kvennalandsliðs Íslands sem mátti þola 4-0 skell gegn Þýskalandi í Þjóðardeildinni í Bochum fyrr í kvöld,
Lestu um leikinn: Þýskaland 4 - 0 Ísland
26.09.2023 18:23
Þungt tap gegn Þjóðverjum
Fyrirfram voru fréttir frá Þýskalandi þess eðlis að þýska liðið væri í krísu eftir slakt gengi Þjóðverja á HM í sumar og 2-0 tap gegn Dönum í fyrstu umferð riðilsins síðastliðinn föstudag. Fréttaflutningur sem væntanlega hefur orðið til þess að þýska liðið mætti dýrvitlaust til leiks gegn Íslandi með það að markmiði að sanna sig á ný.
„Þýskaland var búið að vinna einn af síðustu fimm landsleikjum og miðað við leikinn sem var hjá þeim á dögnum þá voru þær í tómu basli. Núna sá maður að þær ætluðu sér eitthvað, með áhorfendur með sér þannig að þær voru bara rosalega grimmar og öflugar. Við áttum bara í basli og við það við náum ekkert að halda í boltann og spila honum út þá lágum við mikið niðri.“
Það má til sanns vegar færa að sóknarleikur Íslands í leiknum hafi vart verið sjáanlegur en liðið átti ekki eitt einasta skot á markið í leiknum. Vonbrigði fyrir Steina að uppspilið hafi brugðist og liðið á engan hátt náð að ógna Þjóðverjum?
„Okkur gekk illa að halda boltanum, gekk illa að vera sterk á boltann og færa hann á milli. Það getur vel verið að þetta hafi verið illa sett upp og allt það en heilt yfir var þetta bara ekkert góður leikur hjá okkur sóknarlega. Það segir sig sjálft þegar þú átt ekki skot á markið.“
Sagði Steini en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan
Athugasemdir