Man Utd á eftir Bellingham - West Ham og Sevilla vilja Zirkzee - Gordon til Liverpool?
   sun 26. október 2025 13:00
Brynjar Ingi Erluson
„Sinni mínum störfum í KR þangað til einhver vísar mér á dyr“
Óskar Hrafn Þorvaldsson
Óskar Hrafn Þorvaldsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson bjargaði KR-ingum frá falli úr Bestu deildinni í gær eftir mjög svo stormasamt sumar í Vesturbænum, en hann býst ekki við öðru en að fá að vera áfram í þjálfarastólnum á næstu leiktíð.

Lestu um leikinn: Vestri 1 -  5 KR

Óskar sneri aftur heim í KR á síðasta ári eftir farsæl ár í þjálfun hjá Breiðabliki og Gróttu.

Hann stýrði aðeins hluta af síðasta tímabili en þetta var hans fyrsta heila tímabil.

Gengi liðsins var eitthvað sem spámenn sáu ekki fyrir en hér á Fótbolta.net var liðinu spáð 4. sæti deildarinnar. KR var einmitt í 4. sæti eftir sjö umferðir en leiðin lá bara niður á við og þegar 22 umferðum var lokið sat liðið í 10. sæti.

Fyrir lokaumferðina sat KR í fallsæti og þurfti nauðsynlega sigur til þess að bjarga sér frá falli. Það hafðist með flottri spilamennsku gegn Vestra á Ísafirði og fór það svo að KR hélt sér uppi á kostnað Vestra.

Óskar segist ekki búast við öðru en að hann verði áfram hjá KR, en að allt geti þó gerst í heimi fótboltans.

„Ég er með samning og ekki með neinar aðrar hugmyndir en það að þjálfa KR á næsta ári.“

„Við vitum hvernig fótboltinn er. Það er eitt í dag og annað á morgun, en ég sinni mínum störfum í KR, eins margþætt og þau eru, þangað til einhver vísar mér á dyr,“
sagði Óskar Hrafn við Fótbolta.net
Óskar Hrafn: Skrifað í skýin að við fengjum þetta verkefni til að leysa
Athugasemdir