Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   sun 27. febrúar 2022 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hvað með Ísland? - Ætlum við ekki að fylgja í góð fótspor?
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Okkar frábæra kvennalandslið á leik í Hvíta-Rússlandi í apríl.
Okkar frábæra kvennalandslið á leik í Hvíta-Rússlandi í apríl.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karlalandsliðið á að leika við Rússland í sumar.
Karlalandsliðið á að leika við Rússland í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tvær þjóðir hafa stigið fram og tilkynnt um ætlun sína að spila ekki gegn Rússlandi í undankeppni HM í næsta mánuði.

Rússland tekur þátt í umspilinu fyrir HM í næsta mánuði og mun þar mæta Póllandi í undanúrslitum. Pólverjar vilja ekki spila leikinn og er alveg sama um það hvað FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, mun gera í því. Þeim gæti ekki verið meira sama þótt það komi einhvers konar refsing frá FIFA, mikilvægari mál hafa forgang.

Sænska knattspyrnusambandið hefur líka komið fram og segist ekki heldur ætla að spila við Rússland. Ástæðan fyrir þessu er innrás Rússa í Úkraínu. Þessar tvær þjóðir ætla að sýna samstöðu með Úkraínu.

„Þetta er rétt ákvörðun! Ég get ekki hugsað mér að spila gegn Rússum á meðan innrás í Úkraínu heldur áfram. Þetta er ekki rússneskum fótboltamönnum eða stuðningsmönnum að kenna en við getum ekki látið eins og það sé ekkert um að vera," segir Robert Lewandowski, stjörnuleikmaður Póllands.

Hvað með Ísland?
Pólverjar og Svíþjóð eru með skýra afstöðu, en hvað með Ísland? Ísland er í svipaðari stöðu og þessar tvær þjóðir því kvennalandsliðið okkar á að fara til Hvíta-Rússlands og spila þar leik í undankeppni HM í apríl.

Hvíta-Rúss­land ligg­ur meðfram norður­landa­mær­um Úkraínu og hefur aðstoðað Rússland við innrásina.

Svo á karlalandslið okkar leik gegn Rússlandi í Þjóðadeildinni næsta sumar.

Ætlum við að spila gegn þjóðum eins og Rússlandi og Hvíta-Rússlandi? Þar sem þjóðarleiðtogunum finnst það ásættanlegt að ráðast inn í annað land - sem hefur ekkert gert rangt nema það að eiga illskan nágranna - og koma af stað stríði.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, tjáði sig um stöðuna í síðustu viku. Hægt er að lesa það viðtal með því að smella hérna. Það viðtal var tekið áður en innrás Rússlands hófst.

Ætlar KSÍ ekki að fylgja í fótspor Póllands og Svíþjóðar og standa með Úkraínu á þennan hátt? Það er tiltölulega langt í þessa leiki og margt sem getur breyst þangað til, en af hverju ekki að fylgja í þessi góðu fótspor? Það eru forréttindi að fá að spila fótbolta og Rússland og þeirra bandamenn eiga ekki skilið að njóta þeirra forréttinda að fá að senda landslið til leiks í því ástandi sem komið er upp núna.

Vanda Sigurgeirsdóttir var í gær kjörin formaður KSÍ til tveggja ára. Hérna er hugmynd að hennar fyrsta verki.
Athugasemdir
banner
banner