Nunes á blaði hjá Atletico Madrid - Pedro á radarnum hjá Liverpool - Eze orðaður við Tottenham
   fim 27. febrúar 2025 12:04
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kjartan Kári hafnaði Val - „Hjartað sagði mér að vera áfram í FH"
Kjartan Kári átti mjög gott tímabil í fyrra.
Kjartan Kári átti mjög gott tímabil í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Á æfingu FH á hybrid grasinu í vikunni.
Á æfingu FH á hybrid grasinu í vikunni.
Mynd: FH
Kjartan Kári Halldórsson, leikmaður FH, hefur tekið þá ákvörðun að vera áfram í FH. Það gerir hann eftir að hafa rætt við Val sem fékk samþykkt tilboð í leikmanninn fyrr í þessari viku.

Valur bauð í hann þangað til FH sagði já við tilboði frá Hlíðarenda og Víkingur hefur einnig boðið í hann í tvígang, en þeim tilboðum hefur verið hafnað.

Kjartan átti í mjög góðum samskiptum við Val en ákvað að vera áfram í Kaplakrika. Tengingin við FH er sterk eftir hlýjar móttökur á sínum tíma og það hefur vel verið hugsað um hann frá því að hann kom. Hann ræddi við Fótbolta.net um ákvörðunina.

„Það er auðvitað mjög gaman að fá áhuga frá öðrum liðum og það frá Val og Víking. Maður peppast að sjálfsögðu upp við það. En þetta varð síðan alvöru umhugsunarefni þegar Valur hafði fengið samþykkt tilboð í mig og mér var leyft að tala við Val. Það voru góð samtöl og samskipti en hjartað sagði mér að vera áfram í FH."

„Þar var tekið mjög vel á móti mér þegar ég kom og Heimir, Kjartan Henry, Davíð Viðars og allir hafa reynst mér frábærlega. Auk þess er leikmannahópurinn ekki bara góður heldur eru þetta frábærir félagar svo það er gaman á æfingum. Þarna eru líka reynsluboltar eins og Böddi og Björn Daníel ásamt fleirum sem eru stanslaust að láta mig heyra það! Þannig að ég er sáttur við mína ákvörðun en þakka liðunum fyrir áhugann og góð og uppbyggileg samtöl,"
segir Kjartan Kári.

Kjartan Kári er 21 árs kantmaður sem átti mjög gott tímabil með FH í fyrra. Hann var efnilegasti leikmaður Lengjudeildarinnar 2022 þegar hann lék með Gróttu, var seldur til Haugesund í Noregi eftir tímabilið en lék sumarið 2023 á láni hjá FH frá Noregi. FH keypti hann svo eftir tímabilið 2023.
Athugasemdir
banner
banner