Isak vill enn fara - Vlahovic orðaður við Liverpool og Newcastle - Lammens færist nær Manchester United
   mið 27. ágúst 2025 14:19
Elvar Geir Magnússon
Arnar um nýliðana: Ungir töffarar sem hafa tekið skref upp á við
Icelandair
Gísli Gottskálk Þórðarson í leik með Lech Poznan.
Gísli Gottskálk Þórðarson í leik með Lech Poznan.
Mynd: EPA
Daníel Tristan.
Daníel Tristan.
Mynd: Malmö FF
Tveir nýliðar eru í íslenska landsliðshópnum sem kynntur var í dag, fyrir fyrstu leikina í undankeppni HM í september. Framundan er heimaleikur gegn Aserbaídsjan og svo útileikur gegn Frakklandi.

Daníel Tristan Guðjohnsen (19 ára), sóknarmaður Malmö, og Gísli Gottskálk Þórðarson (20 ára), miðjumaður Lech Poznan, eru nýliðarnir.

„Þetta eru ungir góðir leikmenn, þeir eru ekki bara hérna til að fylla upp í hópinn. Þeir eru að fara að gera sig gildandi. Malmö og Lech eru lið sem ég hef mætt, það er fjandsamlegt andrúmsloft að spila á þessum völlum. Þetta eru ungir töffarar sem hafa tekið skref upp á við og hver veit hversu langt þeir ná," segir Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari.

„Þeir koma með ferskleika inn í hópinn og mér finnst þeir eiga skilið að fá tækifæri. Sérstaklega miðað við hvernig við ætlum að spila þá henta þeir okkur gríðarlega vel."

'Guðjohnsen svægið'
Daníel Tristan hefur verið að fá að spila með sænska stórliðinu Malmö og er kominn með tvö deildarmörk á tímabilinu. Faðir hans er auðvitað Eiður Smári Guðjohnsen og var Arnar spurður að því á fréttamannafundi hvort leikstíll þeirra feðga væri líkur?

„Nei, eiginlega ekki. Það er þessi 'Guðjohnsen swagger' í honum sem fer ekki framhjá neinum. Hann er mikill box senter sem mun henta okkur vel. Við viljum beinskeytta leikmenn gegn Aserbaídsjan. Hugmyndin er að hafa sterka líkamlega leikmenn til taks ef á þarf að halda. Ungir leikmenn eru oft óhræddir og hugrakkir," segir Arnar.

Með hærra þak en gengur og gerist
Arnar þekkir Gísla Gottskálk afskaplega vel eftir að hafa þjálfað hann hjá Víkingi.

„Hann auðvitað þekkir mitt kerfi mjög vel. Hann kemur til okkar átján ára eftir erfiða reynslu á Ítalíu. Hann var mjög góður í fótbolta en þurfti að vinna í líkamlega þættinum. Hann hefur tekið þetta skref fyrir skref og virðist með hærra þak en gengur og gerist. Þetta er bara næsta skref hjá honum og hann á skilið að vera í þessum hóp," segir Arnar.

„Að sjá hann spila með Lech Poznan, á þessu leveli og með þessa pressu er mjög áhrifamikið. Það var tímabært að sjá hvort hann gæti tekið skref upp á við í okkar hóp, í okkar umhverfi."
Athugasemdir