Haaland að fá nýjan risasamning - Ruud í molum - Llorente aftur í úrvalsdeildina? - Cherki til Liverpool?
   fös 28. apríl 2023 21:59
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Mikil dramatík er Blikar unnu níu marka leik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Breiðablik 5 - 4 Fram
1-0 Stefán Ingi Sigurðarson ('4)
2-0 Patrik Johannesen ('24)
3-0 Stefán Ingi Sigurðarson ('28)
3-1 Guðmundur Magnússon ('42)
3-2 Már Ægisson ('52)
4-2 Stefán Ingi Sigurðarson ('53)
4-3 Frederico Bello Saraiva ('61)
4-4 Magnús Þórðarson ('76)
5-4 Klæmint Andrasson Olsen ('96)


Lestu um leikinn: Breiðablik 5 -  4 Fram

Ríkjandi Íslandsmeistarar Breiðabliks tóku á móti Fram í eina leik kvöldsins í Bestu deild karla og úr varð hin mesta skemmtun.

Heimamenn mættu grimmir til leiks og skoruðu þrjú mörk á fyrsta hálftímanum. Mörkin þrjú hefðu hæglega getað verið fleiri þar sem Framarar áttu alls engin svör við sóknarleik Blika. Stefán Ingi Sigurðarson skoraði tvö markanna og gerði Patrik Johannesen hitt áður en gestirnir byrjuðu að slá frá sér.

Guðmundur Magnússon minnkaði muninn fyrir Fram eftir glæsilega stoðsendingu frá Fred Saraiva og var staðan 3-1 fyrir Breiðablik í leikhlé.

Framarar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og minnkaði Már Ægisson muninn niður í eitt mark á 52. mínútu, en nokkrum sekúndum síðar voru Blikar búnir að tvöfalda forystuna á ný. Þeir tóku miðjuna, keyrðu hratt upp og skoruðu strax en þar var Stefán Ingi aftur á ferðinni og fullkomnaði þannig þrennuna sína.

Staðan orðin 4-2 og Blikar voru með völdin á vellinum en færanýting gestanna átti eftir að bjarga þeim. Fred Saraiva skoraði glæsilegt mark eftir skyndisókn á 61. mínútu eftir frábæran undirbúning frá Magnúsi Þórðarsyni, sem átti sjálfur eftir að gera jöfnunarmarkið stundarfjórðungi síðar. Jöfnunarmarkið kom einnig eftir skyndisókn og borguðu Blikarnir því dýrt gjald fyrir að passa ekki uppá vörnina.

Lokakafli leiksins var gríðarlega fjörugur þar sem bæði lið komust nálægt því að skora. Blikar sóttu meira og virtust líklegri en Framarar fengu stórhættulegt færi úr skyndisókn til að stela sigrinum.

Það var eftir lok uppgefins uppbótartíma sem heimamenn í Kópavogi tóku hornspyrnu. Klæmint Olsen vann skallaboltann og setti boltann í netið á 96. mínútu til að tryggja sigurinn á lokasekúndunum.

Blikar eru með sex stig eftir fjórar umferðir á meðan Fram situr eftir á botni deildarinnar með tvö stig.


Athugasemdir
banner
banner
banner