Man Utd og Newcastle fylgjast náið með Anderson - Barcelona leiðir kapphlaupið um Greenwood
   þri 28. október 2025 17:35
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Formaður KR: Óskar er ekki að fara neitt á næstunni
Óskar tók við sem þjálfari KR í ágúst í fyrra.
Óskar tók við sem þjálfari KR í ágúst í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum á Ísafirði.
Úr leiknum á Ísafirði.
Mynd: Eva Rós Ólafsdóttir
KR hélt sæti sínu í Bestu deildinni með sigri gegn Vestra á Ísafirði á laugardag. KR þurfti að vinna leikinn og lokatölur urðu 1-5 fyrir gestina úr Vesturbænum.

Magnús Orri Schram er formaður fótboltadeildar KR og Fótbolti.net ræddi við hann. Fyrsta spurningin var út í þjálfarann, Óskar Hrafn Þorvaldsson, en slúðrað hefur verið um að hann gæti stigið til hliðar eftir tímabilið og einblínt á starf sitt sem yfirmaður fótboltamála hjá KR.

Eru líkur á að af þessu verði? Hvernig er samtalið þitt við Óskar? Vilt þú að hann haldi áfram þjálfun liðsins?

„Óskar er og verður áfram þjálfari liðsins. Hans verkefni er rétt að byrja í Vesturbænum. Við erum á vegferð saman - hann, liðið, stjórnin og félagið. Við KR-ingar erum heppin að eiga Óskar í okkar röðum, við tveir spiluðum saman upp alla yngri flokkana og hann var ekki bara góður í fótbolta - hann er líka alveg gríðarlega mikill KR-ingur. Hann er ekki að fara neitt á næstunni," segir formaðurinn.

Innan skamms tíma mun KR keppa um titla
Býstu við mörgum breytingum þegar kemur að leikmannamálum?

„Mótinu er nýlokið og er því ekki tímabært að greina frá neinu ennþá, en við munum auðvitað setjast niður með Óskari og fara yfir tímabilið, leikmannamál, undirbúning, umgjörð í kringum liðið og annað, hvað heppnaðist vel og hvað má betur fara."

„Eflaust verða einhverjar breytingar, það er ekki nema eðlilegt. Þrátt fyrir niðurstöðu ársins teljum við okkur vera með mjög spennandi lið í höndunum og við erum með mjög sterkan kjarna leikmanna. Það er þó alveg ljóst að við höldum áfram uppbyggingu okkar og innan skamms tíma mun KR keppa um titla á Íslandi,"
segir Magnús.

Viðtalið var talsvert lengra og verður meira úr því birt á morgun.
Athugasemdir
banner