„Þetta kom mér ekkert á óvart," sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, aðspurð að því hvernig hefði verið að sjá Glódísi Perlu Viggósdóttur, landsliðsfyrirliða Íslands, útnefnda sem besta miðvörð í heimi á dögunum. Glódís var efst miðvarða í kjörinu á Ballon d'Or verðlaunahátíðinni en hún endaði í 22. sæti á listanum yfir bestu leikmenn í heimi.
„Það er risastórt fyrir íslenskan leikmann að fá svona viðurkenningu og mér finnst hún eiga það skilið. Hún hefur verið að standa sig mjög vel síðustu árin og gott að hún fái athyglina og þessi verðlaun," segir Sveindís en það er erfitt að sjá annað en að Glódís verði valin íþróttamaður ársins hér á Íslandi.
Sveindís segir íslenska hópinn vera sterkan og það séu margir geggjaðir leikmenn að koma upp.
„Íslenskur kvennabolti er á uppleið og það eru ótrúlega margir góðir leikmenn í þessum hóp. Það er gaman að sjá hvað við erum með gott lið. Mér fannst við sýna góða hluti gegn Bandaríkjunum og það er gaman að sjá að við erum að standa í öllum liðum. Það eru geggjaðir leikmenn að koma upp," segir Sveindís jafnframt.
Hún mun ná mjög langt
Ein af þessum geggjuðu leikmönnum er Cecilía Rán Rúnarsdóttir, markvörður Inter. Cecilía hefur komið sterk til baka eftir meiðsli og er að spila frábærlega á Ítalíu.
„Það er geggjað. Hún er klikkað góð í marki. Við vorum áðan í vítaspyrnukeppni og ég veit ekki hversu mörg víti hún varði. Hún les leikinn mjög vel. Það er gaman að sjá hana brillera og það kemur mér heldur ekkert á óvart. Hún mun komast mjög langt í framtíðinni," sagði Sveindís.
Eins og hún hafi verið hér allan tímann
Þá er Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir mætt aftur í hópinn. Sveindís fagnar því svo sannarlega.
„Það er eins og hún hafi verið hér allan tímann. Það er ógeðslega gaman að fá hana aftur. Hún er frábær leikmaður og á að vera hérna. Hún er í góðu formi og það er gaman að sjá hana á æfingum. Ég var mjög glöð að sjá að hún væri í hópnum," sagði framherjinn öflugi.
Athugasemdir