Halldór Hermann Jónsson, miðjumaður KA, er spenntur fyrir stórleik kvöldsins en KA mætir Val í undanúrslitum bikarsins klukkan 18 á Akureyrarvelli. Leikurinn verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net auk þess sem hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
„Ég er svakalega spenntur. Það er skemmtilegt að komast svona langt í bikar og fá að mæta svona sterku liði, hvað þá liði sem maður spilaði með í fyrra. Það er bara draumur í dós," segir Halldór Hermann sem lék 17 leiki með Val í Pepsi-deildinni í fyrra.
„Maður hefur í síðustu leikjum verið að spila gegn Fjarðabyggð og Fram og nú er það Valur. Þetta eru öll mín gömlu lið á meistaraflokksferlinum og það er gaman að klára hringinn á Val í kvöld."
KA er eina 1. deildarliðið sem eftir er í keppninni en liðið lagði Pepsi-deildarlið Breiðabliks og Fjölnis á leiðinni í undanúrslitin.
„Það er mikill spenningur fyrir þessum leik hér fyrir norðan. Margir af þessum strákum sem eru í KA hafa ekki áður komist svona nálægt bikarnum. Við erum allir mjög spenntir. Það yrði hrikalega að komast í úrslitaleikinn en það er erfitt verk fyrir höndum. Valur er með mjög sterkan leikmannahóp og þetta verður ekkert auðvelt."
Verða Akureyringar í skotgröfunum í kvöld?
„Það er aldrei að vita. Við höfum lent í smá skotgröfum í þessum bikarleikjum en alltaf fengið okkar færi. Við höfum verið nokkuð sannfærandi í þessum leikjum en jú það má alveg búast við því að einhvern hluta leiksins verði við í skotgröfunum. Alls ekki allan leikinn," segir Halldór en veðurútlit fyrir leikinn er gott.
„Það er sól núna, nánast logn. Það er algjört toppveður núna og það er klárlega mikill fiðringur í bænum."
Athugasemdir