Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 29. október 2021 23:43
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Víkingur í viðræðum við Breiðablik - „Eitthvað sem ég mun aldrei gleyma"
Kalli og hans fjölskylda með Íslandsmeistarabikarinn.
Kalli og hans fjölskylda með Íslandsmeistarabikarinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Guðjóns og Kalli með bikarinn.
Helgi Guðjóns og Kalli með bikarinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Breiðabliki síðasta vetur.
Í leik með Breiðabliki síðasta vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Í leik með U21 landsliðinu
Í leik með U21 landsliðinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karl Friðleifur Gunnarsson varð tvöfaldur meistari með Víkingi í sumar. Hann var á láni frá Breiðabliki sem endaði í 2. sæti í deildinni. Lánsamningnum lauk eftir tímabilið og er hann byrjaður að æfa með Blikum. Kalli er tvítugur og lék í stöðu hægri bakvarðar í sumar en hann getur einnig spilað á hægri kanti.

Sjá einnig:
Með smá grænt í hjartanu en vonar innilega að Víkingur vinni titilbaráttuna

Einn sturlaðisti leikur sem ég spilað
Tilfinningarnar í næstsíðustu umferðinni þegar Ingvar ver vítið og þið fáið þær upplýsingar að Blikar töpuðu, hvað varstu að upplifa?

„Þetta var einn sturlaðasti leikur sem ég hef spilað á mínum ferli og eins og allir sem horfðu á leikinn vita þá voru tilfinningarnar miklar hjá öllum. En við vorum aldrei að pæla í Breiðablik, hvorki ég né strákarnir í liðinu heldur var einbeitingin alltaf á okkur sjálfum og verkefninu okkar," sagði Kalli.

„Þetta var auðvitað smá skrítin staða fyrir mig en í mínum huga var ég alltaf leikmaður Víkings og einu tilfinningarnar sem ég kom að og upplifði voru gleði að vinna leikinn."

Eitthvað sem ég mun aldrei gleyma
Að klára þetta gegn Leikni, varstu stressaður fyrir þann leik?

„Já, ég held að allir hafi innst inni verið smá stressaðir fyrir þessum leik en ég fann samt ekki fyrir því hjá strákunum heldur bara gríðarlegum fókus. Svo var ég meira spenntur en stressaður."

Hvernig var tilfinningin eftir leik?

„Tilfinningin eftir leik var ólýsanleg, það voru allir að springa úr gleði og þetta er eitthvað sem ég mun klárlega aldrei gleyma."

Gríðarlega stoltur
Vinnið svo Vestra og ÍA í bikarnum og klárið tvennuna. Var hægt að biðja um eitthvað meira?

„Nei það er ekki hægt að biðja um neitt meira enda skrifuðum við okkur í sögubækurnar. Ég var gríðarlega stoltur að vera partur af þessu liði."

Skildi ekki valið og var hundfúll
Hvernig var að sitja á bekknum í þeim leik, varstu svekktur?

„Ég var auðvitað hundfúll að sitja á bekknum. Arnar tók þessa ákvörðun og þá er það bara þannig."

Skildiru liðsvalið? Ræddi Arnar mikið við þig?

„Við ræddum þetta í rauninni ekki neitt og persónulega get ég ekki sagt að ég hafi skilið þetta val en leikurinn fór vel og við unnum bikarinn, það er það sem skiptir máli."

Blikar óskuðu Kalla til hamingju
Hvenær gerist það svo að þú hugsar að þú sért að fara í Breiðablik og ert tæknilega séð ekki lengur Víkingur?

„Ég hugsaði ekki mikið út í það fyrr en bara daginn áður en ég mætti á fyrstu æfinguna mína aftur hjá Breiðablik."

Hvernig tóku menn á móti þér?

„Það óskuðu mér allir til hamingju með árangurinn, ekkert vesen," sagði Kalli og hló.

Viðræður um kaup í gangi
Hvernig líta málin út í dag, eru líkur á því að þú farir til Víkings, að félagið kaupi þig?

„Já, það eru líkur á því og viðræður um kaup eru í gangi þannig að þetta ætti allt að skýrast fljótlega."

Tilbúinn að fara erlendis ef rétta tilboðið kemur á borðið
Það hefur verið talað um áhuga erlendis frá, hefuru heyrt af því sjálfur?

„Ég hef fengið staðfestingu á áhuga en meira hef ég ekki heyrt. Það er auðvitað mjög spennandi kostur og bara draumurinn að fara út. Ég er tilbúinn að fara erlendis ef rétta tilboðið kemur á borðið, annars tek ég annað ár hér heima og þá vonandi með Víkingi," sagði Kalli að lokum.
Athugasemdir
banner