Hefði þurft að taka á sig launalækkun
Vinstri bakvörðurinn Böðvar Böðvarsson ræddi stuttlega við Fótbolta.net í dag eftir að í ljós kom að hann verður ekki áfram hjá sænska félaginu Trelleborg.
Hann var spurður hvernig hann mæti stöðuna í dag, er möguleiki á því að hann sé á leið heim til Íslands?
„Það er í rauninni bara mjög opið eins og staðan er núna. Ágætis möguleiki að koma heim en það fer eftir því hvað er í boði úti, þar sem maður nennir ekki endilega að búa eða spila hvar sem er," sagði Böddi.
Var einhver möguleiki á því að þú yrðir áfram hjá Trelleborg?
„ Það voru einhver samtöl sem við áttum fyrst í sumar og svo nú í lok tímabils. En það var alltaf að fara vera erfitt sökum þess að klúbburinn lagði mikinn pening í það að komast upp seinustu tvö-þrjú árin og ef ég hefði verið áfram hefði ég alltaf þurft að taka launalækkun sem ég hefði ekki verið til í. Annars dýrkaði ég að vera þarna, gott að búa í Malmö og mjög vinalegur klúbbur með háleit markmið og góðu fólki, en ég hafði ekki mikinn áhuga á því að taka annað tímabil í þessari deild," sagði bakvörðurinn.
Trelleborg endaði í 8. sæti B-deildarinnar á tímabilinu eftir að hafa endað í 4. sæti á fyrra tímabili Böðvars með liðinu. Böddi, sem er uppalinn FH-ingur, lék síðast með FH tímabilið 2017.
Athugasemdir