Arsenal og Chelsea vilja Isak - Þrír orðaðir við Liverpool - Potter orðaður við Wolves og West Ham
banner
   fös 29. nóvember 2024 09:19
Elvar Geir Magnússon
Amorim tjáði sig um stuðninginn, Höjlund og stressið
Rúben Amorim í leiknum gegn Bodö/Glimt.
Rúben Amorim í leiknum gegn Bodö/Glimt.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Manchester United vann norska liðið Bodö/Glimt 3-2 í æsispennandi Evrópudeildarleik í gær. Þetta var fyrsti heimaleikur United undir stjórn Rúben Amorim.

„Það var spenna fyrir þessum leik en á sama tíma stress því maður vissi ekki hvað myndi gerast," segir Amorim en leikmenn voru að snúa aftur eftir meiðsli.

Tyrell Malacia entist aðeins í 45 mínútur í sínum fyrsta leik í átján mánuði en hann lék sem vinstri vængbakvörður, stöðu sem krefst gríðarlegs líkamlegs álags.

Luke Shaw kom aftur inn af bekknum, fyrir Lisandro Martínez sem var að spila sinn fyrsta leik síðan hann meiddist fyrir landsleikjagluggann. Þá byrjaði Mason Mount sinn fyrsta leik síðan í ágúst en hann hefur mikið verið á meiðslalistanum síðan hann kom frá Chelsea í byrjun síðasta tímabils.

Það var léttir fyrir Amorim að ná inn sigri en Rasmus Höjlund var hetja United með tvö mörk.

„Við komum inn með nýja hluti frá leiknum gegn Ipswich. Við ýttum liðinu hærra upp völlinn og sköpuðum fleiri færi. Við hefðum átt að klára þennan leik fyrr en ég er ánægður með hvernig leikmenn reyndu að spila okkar leikstíl. Hugarfarið er að halda boltanum."

„Höjlund þarf að bæta ákveðna þætti því stundum snertir hann boltann of oft, en hann er mjög mikilvægur í uppspilinu. Hann sýndi ákefð í teignum. Hann er gæðaleikmaður sem getur skorað úr erfiðum færum og hann skilaði virkilega góðri vinnu í dag."

Amorim fékk gríðarlega góðar móttökur frá stuðningsmönnum Manchester United.

„Ég naut þessa leiks og er ánægður með móttökurnar. Ég kom frá Portúgal og stór hluti fólksins þekkir mig ekki. Ég hef ekkert gert fyrir félagið ennþá en stuðningurinn frá upphafi lét mér líða eins og ég væri ekki einn. Ég er einn af þeim og vonandi veld ég þeim ekki vonbrigðum," segir Amorim.
Athugasemdir
banner
banner