Breiðablik vann 7-0 sigur gegn Fram í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins en í átta-liða úrslitunum fær liðið mjög erfitt verkefni þar sem þær heimsækja Þrótt í Laugardalnum. Þróttur vann 2-1 sigur á ríkjandi meisturum Vals síðasta laugardag.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, ræddi við Fótbolta.net eftir að dregið var í Laugardalnum í dag.
„Þetta verður geggjaður leikur, virkilega spennandi verkefni," sagði Ási þegar hann var spurður út í Þrótt. „Þær slógu út Val síðast og eru erfiðar heim að sækja, þær eru með mjög gott lið. Þær eru með eitt besta liðið. Það er gaman að máta sig við þær."
„Við viljum alltaf fara alla leið og þá þarftu að vinna alla góðu andstæðingana líka. Það er ekkert verra að taka þá þarna en annars staðar. Við erum spennt að takast á við þessa áskorun."
„Ég virði Þróttarana. Þær eru með mjög gott lið. Það er búinn að vera góður stöðugleiki þarna í langan tíma. Í dag eru þær með eitt af toppliðunum."
Tekur undir með Pétri
Eftir leik Þróttar og Vals þá lét Pétur Pétursson, þjálfari Vals, áhugaverð ummæli falla. Valur var aðeins með þrjá útileikmenn á bekknum í þeim leik út af meiðslum og veikindum. „Ég er bara með meiðsli og veikindi í hópnum, ég hafði ekki fleiri leikmenn," sagði Pétur en hann gat ekki tekið leikmenn úr 2. og 3. flokki inn í hópinn þar sem þeir leikmenn eru að spila með KH, venslafélagi Vals, í meistaraflokki til að þróa sinn leik. KH leikur í 2. deild kvenna en Valur má ekki kalla leikmenn til baka úr KH utan glugga; reglurnar leyfa það ekki.
„Eini möguleikinn hjá mér er að fara niður í 4. flokk. Það eru reglur hjá KSÍ um að ég megi ekki nota leikmenn sem eru að spila hjá KH. Mér finnst þetta alveg út í hött og ég er búinn að segja það í mörg ár. Ég þarf að fara niður í 4. flokk þá til að fylla bekkinn og það eru stelpur sem eru 11 og 12 ára."
Ási var spurður út í þessi ummæli í dag þar sem hann er kannski í svipaðri stöðu. Breiðabliki er með venslafélag, Augnablik, sem er í Lengjudeildinni þar sem margir af yngri leikmönnum félagsins fá að spreyta sig í meistaraflokki. En það er ekki hægt að kalla þá upp ef tækifæri opnast á hærra stigi í Breiðabliki, utan glugga. Þarf að vera betra flæði þarna á milli?
„Breiðablik hefur reynt að tala fyrir tillögu á undanförnum árum á KSÍ-þingum og önnur félög hafa bara ekki viljað koma með í það. Að mínu mati er það að hamla framgangi ungra leikmanna, alveg klárlega," segir Ási.
„Það eykur á það að við þurfum að finna farveg fyrir unga leikmenn annars staðar þegar þær eru ekki alveg komnar í það að fá nógu mikið af mínútum hjá okkur. Í staðinn fyrir að þær gætu verið í varaliði og á bekk hjá okkur, þá þurfum við að fá okkur stærri hóp og fleiri leikmenn til að geta höndlað mótið en samt komið ungu leikmönnunum fyrir í verkefni annars staðar. Þetta flækir öll mál og þetta púsluspil með félagaskipti ungra leikmanna - ég er alveg sammála Pétri - það gerir okkur erfitt fyrir. Og það á við um öll félög, ekki bara stóru félögin."
„Mér finnst að við ættum - eins og víða er gert í Evrópu - að geta verið með venslalið í neðri deild þar sem eru ákveðnar reglur sem gilda. Að mínu mati þarf að breyta þessum reglum. Það þarf að taka þetta betur til skoðunar. Þetta er búið að vera í nefnd í eitt eða tvö ár. Það þarf að fara að gera eitthvað í þessu."
Það var fjallað um þetta mál á ársþingi KSÍ árið 2019 eins og lesa má um hérna en þá fór málið í starfshóp.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan þar sem Ási ræðir um upphaf tímabilsins en það má búast við spennandi keppni í Bestu deildinni í sumar.
Athugasemdir