Liverpool undirbýr mettilboð í Alexander Isak - Rasmus Höjlund nálgast Napoli
   lau 30. ágúst 2025 21:35
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Real Madrid lenti í erfiðleikum gegn Mallorca
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Real Madrid 2 - 1 Mallorca
0-1 Vedat Muriqi ('18)
1-1 Arda Guler ('37)
2-1 Vinicius Junior ('38)

Real Madrid tók á móti Mallorca í lokaleik dagsins í efstu deild spænska boltans og bauð fyrri hálfleikurinn upp á mikla skemmtun.

Kylian Mbappé var fyrstur til að koma boltanum í netið en markið var ekki dæmt gilt vegna rangstöðu, eftir athugun í VAR-herberginu.

Madrídingar voru talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Vedat Muriqi tók forystuna gegn gangi leiksins. Hann skoraði með skalla eftir hornspyrnu á 18. mínútu.

Heimamenn sóttu stíft og uppskáru jöfnunarmark þegar Arda Güler svaraði með skallamarki í kjölfarið af stuttri hornspyrnu á hinum enda vallarins.

Vinícius Júnior tók forystuna fyrir Real um mínútu síðar eftir laglegt einstaklingsframtak í skyndisókn. Mbappé setti boltann svo líka í netið en aftur var ekki dæmt mark vegna rangstöðu eftir athugun með VAR.

Í síðari hálfleik kom Güler boltanum aftur í netið, en í þriðja sinn skarst VAR inn í spilið. Í þetta sinn var ekki dæmt mark vegna hendi í aðdragandanum.

Seinni hálfleikurinn var mjög jafn og spennandi þar sem bæði lið fengu færi til að skora en nýttu ekki. Real stóð því uppi sem sigurvegari að lokum, lokatölur 2-1. Heimamenn voru heppnir því Álvaro Carreras bjargaði stórkostlega á marklínu á 65. mínútu.

Real er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir á meðan Mallorca er aðeins með eitt stig, eftir að tapleiki gegn Real og Barcelona.
Athugasemdir