Arsenal er með fjögurra stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar níu umferðir hafa verið leiknar. Man City tapaði þriðja deildarleik sínum á tímabilinu.
Arsenal-menn líta enn betur út en á síðasta tímabili og þykja líklegir til þess að vinna deildina í fyrsta sinn síðan 2004.
Eberechi Eze, sem kom til Arsenal frá Crystal Palace í sumar, skoraði sigurmark liðsins gegn sínum gömlu félögum. Það var svo sem skrifað í skýin, en markið kom eftir fast leikatriði.
Declan Rice kom aukaspyrnu inn á teiginn og datt boltinn fyrir Eze sem skoraði með frábæru skoti í hægra hornið.
Palace fékk sín augnablik í fyrri hálfleiknum en tókst ekki að nýta færin og þá gat Arsenal tvöfaldað forystu sína snemma í þeim síðari hálfleik en Gabriel skallaði boltanum í slá áður en Palace-menn björguðu á línu frá Rice.
Gabriel var aftur í færi rúmum tuttugu mínútum fyrir leikslok en setti boltann framhjá eftir hornspyrnu. Mikil ákefð í Gabriel sem lenti á stönginni en náði að skokka það af sér.
Vörn Arsenal hélt vel eins og í öðrum leikjum á þessu tímabili og tókst þeim að sigla þessum sigri heim og það nokkuð örugglega.
Arsenal er á toppnum með 22 stig en Palace komið niður í 10. sæti með 13 stig.
Fjórði sigur Villa í röð
Aston Villa er komið í gang í ensku úrvalsdeildinni eftir erfiða byrjun en liðið marði 1-0 sigur á Manchester City.
Matty Cash skoraði eina mark leiksins með glæsilegu skoti fyrir utan teig eftir hornspyrnu.
Erling Haaland, sem hefur verið sjóðandi heitur í byrjun tímabils, fékk færi stuttu eftir markið en Emiliano Martínez varði frábærlega frá honum.
Á lokamínútum leiksins kom Haaland boltanum í netið en VAR tók markið af honum vegna rangstöðu.
Man City tókst ekki að jafna metin og er það Villa sem vinnur fjórða leikinn í röð en þriðja tap Man City í deildinni staðreynd. Villa er í 7. sæti með 15 stig en Man City í 4. sæti með 16 stig.
Tap í endurkomu Dyche
Sean Dyche stýrði Nottingham Forest í fyrsta sinn í deildinni í 2-0 tapi gegn Bournemouth.
Dyche tók við liðinu af Ange Postecoglou á dögunum og stýrði fyrsta leiknum í Evrópudeildinni þar sem liðið vann 2-0 sigur á Porto, en tókst ekki að fylgja því á eftir í deildinni.
Marcus Tavernier og hinn 19 ára gamli Eli Junior Kroupi skoruðu mörkin á fimmtán mínútna kafla í fyrri hálfleik.
Sigur Bournemouth fleytir þeim upp í annað sætið með 18 stig, fjórum á eftir toppliði Arsenal en Forest í 18. sæti með aðeins 5 stig.
Ófarir Wolves halda áfram
Nýliðar Burnley unnu dramatískan 3-2 sigur á Wolves á Molineux-leikvanginum í Wolverhampton.
Zian Flemming kom Burnley í tveggja marka forystu á sextán mínútna kafla í fyrri hálfleiknum. Fyrra markið gerði hann á 16. mínútu eftir laglega sendingu frá Quilindschy Hartman.
Boltinn sveif yfir varnarmann Wolves og á Flemming sem skaut boltanum viðstöðulaust á lofti og neðst í vinstra hornið. Glæsilegt mark sem minnti svolítið á mark Robin van Persie með Man Utd um árið, en þó kannski alveg sami elegans yfir því.
Hartman og Flemming tengdu síðan aftur saman á 30. mínútu, en langur bolti kom á Hartman sem var vinstra megin í teignum. Hann kom með silkimjúka sendingu inn á miðjan teiginn á Flemming sem flengdi boltanum í þaknetið.
Skelfileg byrjun hjá Wolves sem hafði tapað báðum leikjum sínum þar sem liðið er tveimur mörkum undir en það virkaði aðeins öðruvísi bragur á þeim og tókst liðinu að koma til baka áður en hálfleikurinn var úti.
Jörgen Strand Larsen minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu á 42. mínútu og í uppbótartíma fyrri hálfleiks jafnaði Marshall Munetsi með skalla eftir laglega bakfallsspyrnu Ladislav Krejci í teignum.
Wolves hafði ekki unnið leik á tímabilinu en því miður fyrir heimamenn þá var það ekki að fara breytast.
Seint í uppbótartíma skoraði Lyle Foster sigurmark Burnley eftir laglega sendingu inn fyrir frá Hannibal Mejbri. Foster var fyrir aftan varnarmann Wolves, stakk sér fram fyrir hann og rúllaði boltanum framhjá markverðinum og í netið.
Sjöunda tap Wolves á tímabilinu sem er með aðeins 2 stig á botninum en Burnley í 16. sæti með 10 stig.
Úrslit og markaskorarar:
Bournemouth 2 - 0 Nott. Forest
1-0 Marcus Tavernier ('25 )
2-0 Eli Junior Kroupi ('40 )
Aston Villa 1 - 0 Manchester City
1-0 Matty Cash ('19 )
Wolves 2 - 3 Burnley
0-1 Zian Flemming ('14 )
0-2 Zian Flemming ('30 )
1-2 Jorgen Strand Larsen ('42 , víti)
2-2 Marshall Munetsi ('45 )
2-3 Lyle Foster ('90 )
Arsenal 1 - 0 Crystal Palace
1-0 Eberechi Eze ('39 )
Stöðutaflan
England
Premier league - karlar
| L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
| 1 | Arsenal | 9 | 7 | 1 | 1 | 16 | 3 | +13 | 22 |
| 2 | Bournemouth | 9 | 5 | 3 | 1 | 16 | 11 | +5 | 18 |
| 3 | Tottenham | 9 | 5 | 2 | 2 | 17 | 7 | +10 | 17 |
| 4 | Sunderland | 9 | 5 | 2 | 2 | 11 | 7 | +4 | 17 |
| 5 | Man City | 9 | 5 | 1 | 3 | 17 | 7 | +10 | 16 |
| 6 | Man Utd | 9 | 5 | 1 | 3 | 15 | 14 | +1 | 16 |
| 7 | Liverpool | 9 | 5 | 0 | 4 | 16 | 14 | +2 | 15 |
| 8 | Aston Villa | 9 | 4 | 3 | 2 | 9 | 8 | +1 | 15 |
| 9 | Chelsea | 9 | 4 | 2 | 3 | 17 | 11 | +6 | 14 |
| 10 | Crystal Palace | 9 | 3 | 4 | 2 | 12 | 9 | +3 | 13 |
| 11 | Brentford | 9 | 4 | 1 | 4 | 14 | 14 | 0 | 13 |
| 12 | Newcastle | 9 | 3 | 3 | 3 | 9 | 8 | +1 | 12 |
| 13 | Brighton | 9 | 3 | 3 | 3 | 14 | 15 | -1 | 12 |
| 14 | Everton | 9 | 3 | 2 | 4 | 9 | 12 | -3 | 11 |
| 15 | Leeds | 9 | 3 | 2 | 4 | 9 | 14 | -5 | 11 |
| 16 | Burnley | 9 | 3 | 1 | 5 | 12 | 17 | -5 | 10 |
| 17 | Fulham | 9 | 2 | 2 | 5 | 9 | 14 | -5 | 8 |
| 18 | Nott. Forest | 9 | 1 | 2 | 6 | 5 | 17 | -12 | 5 |
| 19 | West Ham | 9 | 1 | 1 | 7 | 7 | 20 | -13 | 4 |
| 20 | Wolves | 9 | 0 | 2 | 7 | 7 | 19 | -12 | 2 |
Athugasemdir




