Síðasta umferð Bestu deildarinnar fór fram um helgina og í kjölfarið var sérstakur lokaþáttur Innkastsins tekinn upp. Þar kynnti Sæbjörn Steinke, fréttamaður Fótbolta.net, sérstakan annál um tímabilið og fór meðal annars yfir bestu leikmannakaup Bestu deildarinnar.
Gylfi Þór Sigurðsson - Bestu kaup tímabilsins:
Gylfi gekk til liðs við Víking frá Val skömmu fyrir tímabil við mikið fjölmiðlafár, en hann vildi fara yfir í Víking til þess að vinna titilinn. Tímabilið byrjaði illa og Gylfi fékk sinn skerf af gagnrýni í upphafi tímabils. Stuðningsmenn Vals mættu til að mynda með borða tileinkaðan Gylfa sem á stóð: „Enginn skilaréttur!“ En þegar mest á reyndi steig Gylfi upp og var einn allra besti leikmaður deildarinnar.
„Gylfi er náttúrulega sjálfkjörinn. Hann var 'unplayable í lokin,“ sagði Valur Gunnarsson sérfræðingur Innkastsins um Gylfa.
Birnir Snær Ingason:
Gekk óvænt til liðs við KA þegar liðið var í fallsæti en þegar talið var upp úr pokunum var liðið tíu stigum frá falli og aldrei nein hætta á að liðið myndi falla. Innkoma Birnis í liðið hefur haft mikið um það að segja en hann skoraði 5 mörk í 12 leikjum fyrir félagið.
Eiður Gauti Sæbjörnsson:
Eiður Gauti var einn af lykilmönnum KR-liðsins í sumar og skoraði 14 mörk í 23 leikjum. Gulltryggði síðan liðinu sæti í efstu deild er hann skoraði tvö mörk gegn Vestra í úrslitaleik síðastliðna helgi. Hann hefur aðeins leikið í efstu deild í tvö ár, en þar áður spilaði hann með Ými, venslaliði HK, í neðri deildunum þar sem hann skoraði af vild.
Marcel Zapytowski:
Sá pólski kom til Vestmannaeyja rétt fyrir mót sýndi strax hvers megnugur hann er. Hann er nú talinn vera einn af betri markvörðum deildarinnar en ÍBV framlengdi samning markvarðarins mikilvæga nýverið. Marcel er 24 ára og hefur leikið með Birkirkara á Möltu ásamt því að hafa leikið með Korona Kielce, Resovia Rzeszow og Wisla Plock í heimalandinu.
Daníel Hafsteinsson:
Passaði strax inn í lið Víkings eftir að hann skipti þangað yfir frá KA síðastaliðinn vetur. Hann spilaði 26 leiki með liðinu í deild og átti gott samstarf með Gylfa á miðju Víkinga.
Athugasemdir

