Kolbeinn Þórðarson var í byrjunarliði Gautaborg sem vann Halmstad 3-0 í sænsku deildinni. Gísli Eyjólfsson var ónotaður varamaður hjá Halmstad.
Kolbeinn skoraði annað mark liðsins en það var laglegt mark. Hann lék á einn varnarmann inn í teignum og lék síðan á markvörðinn og skoraði.
Gautaborg er í 4. sæti með 47 stig eftir 28 umferðir en Halmstad er í 11 sæti með 31 stig.
Sverrir Ingi Ingason var fyrirliði Panathinaikos þegar liðið vann 2-0 gegn Asteras Tripolis í grísku deildinni. Panathinaikos er með 12 stig í 6. sæti eftir sjö umferðir.
Þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Rafa Benitez, fyrrum stjóra Liverpool og Real Madrid.
Viðar Ari Jónsson lagði upp markið sem innsiglaði sigur HamKam gegn Kristiansund í norsku deildinni en 3-1 urðu lokatölur. HamKam er í 11. sæti með 31 stig eftir 26 umferðir.
Stefán Ingi Sigurðarson spilaði 70 mínútur þegar Sandefjord gerði markalaust jafntefli gegn Frederikstad. Sandefjord er í 5. sæti með 38 stig eftir 25 umferðir.
Kristall Máni Ingason og Daníel Leó Grétarsson voru í byrjunarliði Sönderjyske sem gerði markalaust jafntefli gegn Randers í dönsku deildinni. Sönderjyske er með 16 stig í 8. sæti eftir 13 umferðir.
Hinn 17 ára gamli Viktor Bjarki Daðason kom inn á undir lokin í markalausu jafntefli FCK gegn Viborg. FCK er með 22 stig í 3. sæti, átta stigum frá toppnum.
Athugasemdir



