Stjarnan tryggði sér í Evrópusæti þrátt fyrir að hafa tapað gegn Breiðabliki fyrr í dag. Liðið mátti tapa með einu marki til þess að tryggja sæti í Evrópu en leikar enduðu 2-3, Blikum í hag. Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, mætti í viðtal eftir leik.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 3 Breiðablik
„Ég er mjög ánægður, mér finnst þetta vera lið og hópur sem hefur unnið fyrir því að vera í Evrópukeppni. Þess vegna er ég mjög ánægður að við skildum klára það og vera í topp þremur. Mér finnst þetta lið sem á að vera þar.“
Hvernig voru taugarnar á lokamínútunum?
„Þær voru allt í lagi. Það var voða lítið sem ég gat gert. Strákarnir voru með þetta, ef maður tekur allar tilfinningar út og reynir að upplifa 'momentum-ið' og hvað sem var að gerast á vellinum, fannst mér við vera allt í lagi. Mér fannst við alveg getað haldið þetta út eins og við gerðum. Svo kemur þessi hjólhestaspyrna þar sem mátti litlu muna. Við gerðum nóg og er mjög ánægður með hópinn.
Ánægður með tímabilið hjá Stjörnunni í heild sinni?
„Það hefur mikið gengið á, langt tímabil. Mér líður svolítið eins og þetta hafi verið þrjú, fjögur tímabil í einu. Ég er mjög ánægður með sumt, en margt sem við getum gert betur og unnið í. Þetta var bara upp og niður, þurfum að bæta stöðugleikann, spilamennskuna og varnarleikinn. Þú endar ekki í efstu þremur nema hafa unnið fyrir því. Ég er mjög ánægður með hópinn.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
























