Fótbolti.net ræddi við Ragnar Braga Sveinsson, fyrirliða Fylkis, eftir að Heimir Guðjónsson var kynntur sem nýr þjálfari liðsins.
„Ég er gríðarlega ánægður með þetta. Þetta er frábær ráðning, eins og þú sérð á mætingunni og stemningunni í hverfinu, vonandi að þetta sé upphafið af nýjum tímum hérna. Gríðarleg spenna fyrir honum hjá öllum Árbæingum, mörg andlit hérna sem ég hef ekki séð lengi sem er algjörlega frábær," sagði Ragnar Bragi léttur.
„Maður sem er sigursælasti þjálfarinn á Íslandi. Að fá hann inn er geggjað. Hann er líka að fara í fullt starf sem hefur ekki verið hjá okkur áður. Eftir erfitt ár þá er þetta smá spark í rassinn. Þetta lyftir hverfinu upp og fólkinu í kringum klúbbinn, sjálfboðaliðum, styrktaraðlinum og fleira. Þetta sýnir að klúbbnum sé alvara."
Ragnar Bragi var ánægður með Heimi á fundinum í Fylkishöllinni en margir Fylkismenn voru mættir til að fylgjast með.
„Þetta getur verið vandræðalegt og stutt á svona fundum. Hann er gamall refur í bransanum og kann að svara og fara eðlilega yfir hlutina. Ekki með einhver týpísk svör út í loftið og æft svar, hann fór vel yfir hlutina og ég held að fólk hafi kunnað að meta það," sagði Ragnar Bragi.
Athugasemdir






















