'Það er léttast í heimi að vera fyrir utan og benda á allt sem þarf að gera, alveg eins og sófasérfræðingarnir heima'
Aron Elís Þrándarson sneri aftur á völlinn á laugardag, tæpum sjö mánuðum eftir að hafa slitið krossband í fyrstu umferð Bestu deildarinnar í apríl. Aron lék lokamínúturnar í sigri Víkings gegn Val. Hann, ásamt öðrum Víkingum, lyfti Íslandsmeistaraskildinum eftir leikinn. Fótbolti.net ræddi við Aron í dag.
„Það var sturlað að koma aftur, eitthvað sem maður var ekki alveg búinn að sjá fyrir sér þegar maður lenti í meiðslunum, en svo þegar leið á varð þetta meiri og meiri möguleiki. Ég hef náð að æfa síðustu 2-3 vikur almennilega. Það var geðveikt að fá að koma inn á," segir Aron.
„Það var sturlað að koma aftur, eitthvað sem maður var ekki alveg búinn að sjá fyrir sér þegar maður lenti í meiðslunum, en svo þegar leið á varð þetta meiri og meiri möguleiki. Ég hef náð að æfa síðustu 2-3 vikur almennilega. Það var geðveikt að fá að koma inn á," segir Aron.
„Ég get spilað, en ég væri að ljúga því ef ég segði að ég væri í 100% standi. Það væri líka óeðlilegt að vera 100% í fyrsta leik eftir svona meiðsli. Þetta lítur ágætlega út, ég hef núna góðan tíma til að undirbúa mig fyrir næsta tímabil. Ég er ekkert að fara í frí, ég er að fara byrja æfa aftur núna í þessari viku og undirbúa mig fyrir næsta tímabil."
„Það var ákveðið með læknateymi Víkings að ég færi ekki í aðgerð og það reyndist rétt ákvörðun held ég."
Vegur þungt að þetta er félagið hans
Hvernig var að lyfta skildinum?
„Það var geðveik tilfinning þó að maður hafi ekki verið eins mikill partur af þessu og maður hefði viljað. Þetta var öðruvísi hlutverk. Svo er þetta minn klúbbur og það vegur helvíti þungt í þessu. Ég vil að minn klúbbur nái árangri og þetta var því geðveik tilfinning."
Datt í djúpan dal andlega
Þegar þú meiddist, hugsaðir þú einhvern tímann um að kalla þetta gott?
„Segi það nú ekki, en maður fer alveg í djúpan dal þegar maður lendir í svona. Þetta er í fyrsta sinn sem ég lendi í svona miklu höggi. Maður hefur alveg meiðst eitthvað í gegnum tíðina, en ekki svona mikið. Það var mikil óvissa hvernig þetta væri, aftara krossband en ekki fremra krossband, óalgeng meiðsli og óvissa sem fylgdi. Ég segi ekki að ég hafi verið að gefast upp, en ég datt í djúpan dal andlega fyrsta mánuðinn sem er held ég eðlilegt."
Sérstök stund
Hvernig var að koma inn á völlinn?
„Ánægja að fá að koma inn á í þessum leik, lokaleiknum, fá að vera í búningnum þegar við tókum á móti titlinum. Það var mjög sérstakt. Stuðningurinn úr stúkunni er geggjaður, ég er uppalinn Víkingur og vil gefa sem mest til þeirra. Það var geðveik tilfinning að fá að koma inn á og vera enn meiri partur af þessu."
Alls ekki að hætta
Vallarþulurinn á Víkingsvelli kynnti Aron Elís til leiks eins og hann væri að fara kveðja eftir leikinn og kom það stuðningsmönnum eðlilega í opna skjöldu. Aron er þó ekki að hætta, um mistök voru að ræða.
„Ég pældi ekki alltof mikið í hvað hann var að segja," segir Aron og hlær. „En ég get sagt að ég er ekki hættur, ég er með samning út næsta tímabil og ég er byrjaður að undirbúa mig strax undir það."
Léttast í heimi að finna að öllu
Aron talaði um að hafa verið í öðruvísi hlutverki, hann var ekki að spila en var hann í kringum liðið?
„Fyrst var ég í spelku í þrjá mánuði og var ekkert úti á velli. Ég var í því hlutverki að mæta í klefann fyrir leiki og vera sýnilegur. Ef það var eitthvað sem ég sá þá lét ég menn vita. Svo kom alveg tímabil þar sem hlutirnir voru ekki alveg að ganga, þá var ég í því hlutverki að stappa í menn stálinu og sjá til þess að menn viðhaldi sjálfstrausti."
„Það er léttast í heimi að vera fyrir utan og benda á allt sem þarf að gera, alveg eins og sófasérfræðingarnir heima. Maður þarf að passa sig að finna jafnvægið, vera ekki að tuða of mikið þegar það er smá mótlæti, en gera samt sem áður kröfur og reyna halda halda 'standardnum' uppi. Víkingur stefnir mjög hátt og það mætti halda að heimurinn væri að farast ef liðið vinnur ekki tvo leiki í röð. Eldri leikmenn sem eru ekki með geta gefið af sér þó að þeir séu ekki inni á vellinum."
Snýst um að standa sig þegar mest á reynir
Af hverju varð Víkingur Íslandsmeistari að mati Arons?
„Þegar hlutirnir voru ekki alveg að ganga í sumar og menn kepptust við að þetta liti ekki nógu vel út, þá sagði ég að þetta snerist um að standa sig vel þegar allt er undir í 'crunchtime'. Menn stóðu sig þegar allt var undir, við unnum alla leikina í úrslitakeppninni, stóðumst stóra prófið í Garðabæ og fleiri próf."
„Vörnin hélt og við vorum heilsteyptasta liðið í ár. Við stefnum á að vera það aftur á næsta ári líka," segir Aron.
Athugasemdir


