Almarr Ormarsson skrifaði undir þriggja ára samning við Fjölni í dag. Almarr leit við á skrifstofu Fótbolta.net eftir undirskriftina.
Hvað getur hann fært Fjölnisliðinu?
„Aðeins meiri reynslu en margir hafa þarna. Vonandi er ég með gæði sem þeir leitast eftir líka."
Fjölskylduástæður urðu til þess að Almarr yfirgaf KA.
„Ég og kærastan vorum að eignast okkar fyrsta barn. Við höfum verið búsett hérna í borginni, ég er búinn að vera með annan fótinn hérna síðustu tvö árin. Við ákváðum að vera áfram hér og þá þurfti að ég að skipta um lið."
Hvernig horfir hann á liðið tímabil hjá KA, það fyrsta hjá Akureyrarliðinu í efstu deild í langan tíma?
„Mér fannst við standa okkur vel. Sérstaklega framan af. Það fór aðeins að draga úr okkur þegar líða fór á tímabilið en við vorum einum sigri frá því að lenda í fjórða sæti. Þetta var það jöfn deild að með smá heppni hefðum við getað endað ofar. Ég held að menn geti verið stoltir af þessu tímabili fyrir norðan."
Almarr var ánægður með hvernig hann fann sig persínulega á liðnu tímabili.
„Mér fannst ég nokkuð góður í sumar. Tímabilið í undan í 1. deildinni var ég stundum að ströggla en er ánægður með hvernig gekk í sumar. Ég var að sinna meira varnarhlutverki en ég er vanur og var minna í boxi andstæðingana. Ég tel mig þó enn geta skorað mörk ef Fjölnir er að leita að því. Ég býst við því að vera á miðjunni en ef þeir vilja nota mig í hafsent þá verð ég í hafsent!"
„Fjölnir er ungt félag. Ég held að félagið sé einmitt tveimur vikum eldra en ég. Við erum fæddir sama ár. Fjölnir er fjölskyldufélag og ég held að þetta verði skemmtilegt," segir Almarr en viðtalið er í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir