Liverpool veit verðið á Kerkez - City vill Saliba og Reijnders - Saka í viðræður um nýjan samning
   mán 31. mars 2025 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Mun hjálpa liðinu að láta þessa spá líta illa út í haust"
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar.
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan fagnar marki í fyrra.
Stjarnan fagnar marki í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Jökull er á leið inn í sitt annað heila tímabil sem aðalþjálfari Stjörnunnar.
Jökull er á leið inn í sitt annað heila tímabil sem aðalþjálfari Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér finnst það mjög eðlilegt. Það eru mörg mjög sterk lið og liðin fyrir ofan okkur hafa styrkt sig mjög mikið. Ég hef auðvitað mikla trú á að við getum gert betur en þessi spá segir til um," segir Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, spurður út í spá Fótbolta.net fyrir komandi sumar.

Stjörnumönnum er spáð fimmta sæti deildarinnar. Þeir ætla sér stærri hluti en það.

„Það hefur gengið ágætlega í vetur, æfingalega mjög vel. Menn hafa lagt mikið á sig og við höfum verið með mikinn fókus. Þegar kemur að leikjunum þá getum við gert töluvert betur en við höfum gert í flestum leikjum og þar liggur áskorunin okkar núna, að við höldum þeim standard í leikjum sem við vitum að við getum gert," segir Jökull.

„Stemningin í hópnum er mjög góð, hópurinn er þéttur og menn verða tilbúnir að fórna sér til þess að gera stuðningsmenn liðsins stolta."

Hvernig horfirðu til baka á síðasta tímabil?

„Það var mjög lærdómsríkt. Það var erfitt að mörgu leyti en hópurinn á mikið hrós fyrir það hvernig liðið endaði mótið. Það voru leikmenn sem komust út í atvinnumennsku sem allir í hópnum mega vera ánægðir með. Heilt yfir er ég mjög ánægður með síðasta tímabil og tek mikið út úr því."

Það hafa verið nokkrar breytingar á leikmannahópnum í vetur og Jökull er ánægður með hópinn.

„Ég er mjög ánægður með leikmannahópinn. Það getur samt verið að við þurfum að styrkja hann, það kemur í ljós mjög fljótlega en á þessum tímapunkti getum við ekki útilokað að liðið þurfi á styrkingu að halda."

Stjarnan ætlar sér að gera betur en í fyrra.

„Það er ekki komið neitt markmið um sæti en það er alveg skýrt að við ætlum að verða betri en við vorum í fyrra. Það verður ekki auðvelt en það fer mikið púður í að vinna í því. Ef við verðum betri en í fyrra þá er líklegt að það skili okkur ofar í töflunni þó svo að liðin fyrir ofan okkur og í kringum okkur hafi styrkt sig vel."

„Við munum leggja mikið á okkur til þess að gera fólkið okkar stolt með því að allir fórni sér fyrir félagið og við munum skemmta stuðningsmönnum með skemmtilegum fótbolta. Öll orka sem fólkið okkar getur gefið liðinu úr stúkunni mun hjálpa strákunum að gera það og mun hjálpa liðinu að láta þessa spá líta illa út í haust," sagði Jökull að lokum.
Athugasemdir
banner
banner